Katrine Lunde er komin heim til sín eftir að hafa verið flutt í skyndi á sjúkrahús í miðjum leik Vipers Kristiansand og Romerike Ravens í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Eftir um 20 mínútna leik fann Lunde, sem er ein af betri og sigursælustu handknattleiksmarkvörðum sögunnar, til óþæginda og svima þar sem hún stóð vakt sína í marki Vipers.
Lunde fékk aðsvif, virtist líða út af. Henni var vitanlega komið til aðstoðar áður en hún gat með aðstoð gengið af leikvelli. Því næst var Lund flutt á sjúkrahús til skoðunar. Grunur leikur á blóðþrýstingsfalli.
Eins og gefur að skilja skutu veikindi Lunde leikmönnum og áhorfendum skelk í bringu enda óþægilegt að vera vitni að.
Vipers Kristiansand gaf út tilkynningu í morgun þar sem fram kemur að Lunde hafi það gott eftir aðstæðum og að ekkert óeðlilegt hafi komið út úr rannsóknum. Lunde nýtur hvíldar heima fyrir næstu daga meðan hún jafnar sig.
Lunde verður 44 ára 30. mars. Hún hefur leikið 350 landsleiki fyrir Noreg enda nánast átt sleitulaust sæti í landsliðinu í 22 ár. Lunde er margfaldur heims-, Evrópu- og Ólympíumeistari með norska landsliðinu auk þess að hafa nokkrum sinnum unnið Meistaradeild Evrópu, m.a. þrjú síðustu ár með Vipers. Lunde var valin besti leikmaður úrslitahelgar Meistaradeildar Evrópu á síðasta vori. Hún stefnir á sæti í norska landsliðinu sem tekur þátt á Ólympíuleikunum í Frakklandi í sumar.
Vipers sem vann leikinn gegn Romerike Ravens, 33:27, hefur fullt hús stiga að loknum 20 umferðum í norsku úrvalsdeildinni.