Dagur Sigurðsson fagnaði afar góðum sigri í fyrsta leik sínum sem landsliðsþjálfari Króatíu í kvöld þegar hans menn unnu sex marka sigur á austurríska landsliðinu, 35:29, í fyrstu umferð 2. riðils forkeppni Ólympíuleikanna í Hannover. Staðan var jöfn í hálfleik, 16:16. Króatar voru mikið sterkari í síðari hálfleik, jafnt í vörn sem sókn.
Austurríska liðið fór betur af stað og skoraði m.a. fimm af fyrstu sex mörkum leiksins. Þótt leikar jöfnuðst aðeins er á leið höfðu Austurríkismenn yfirhöndina nær því til loka fyrri hálfleiks. Króatar urðu fyrir áfalli um miðjan fyrri hálfleik þegar Jakov Gojun fékk beint rautt spjald. Ivan Martinović tók stöðu hans í hægri skyttunni og fór á kostum, skoraði níu mörk og var valinn maður leiksins. Fjarvera Gojun kom því ekki að sök.
Hertu tökin
Króatar voru komnir með fimm marka forskot, 26:21, um miðjan síðari hálfleik. Þeir héldu áfram að auka forskot sitt. Austurríkismenn reyndu að slá Króata út af laginu með sjö manna sóknarleik en varð ekki kápan úr því klæðinu.
🎤 𝗜𝘇𝗯𝗼𝗿𝗻𝗶𝗸 𝗗𝗮𝗴𝘂𝗿 𝗦𝗶𝗴𝘂𝗿𝗱𝘀𝘀𝗼𝗻, 𝗦𝘂𝗽𝗲𝗿 𝗠𝗮𝗿𝗶𝗼 Š𝗼š𝘁𝗮𝗿𝗶ć, 𝗜𝘃𝗮𝗻 𝗠𝗮𝗿𝘁𝗶𝗻𝗼𝘃𝗶ć & 𝗠𝗮𝘁𝗲𝗷 𝗠𝗮𝗻𝗱𝗶ć
— Hrvatski rukometni savez (@HRS_CHF) March 14, 2024
☝🏼 "Hvala navijačima! ❤️ Napravili smo tek jedan korak prema Parizu. Mirni & koncentirani do kraja." #crohandball #roadtoparis pic.twitter.com/YigiXLSZSX
Dagur tók tvisvar leikhlé á síðustu 10 mínútunum til þess að brýna sína menn til að leika af fullum krafti út leiktímann, halda skipulagi og fara ekki út að leika sem einstaklingar. Allt bar þetta árangur og mjög góður sigur Króata var í höfn. Landar þeirra á áhorfendapöllunum kættust mjög.
Austurríkismenn og Króatar skildu jafnir í riðlakeppni Evrópumótsins í janúar, 28:28.
Forkeppni ÓL24, karlar: Leikir, úrslit, staðan
Mætast á laugardaginn
Þar með standa Króatar og Þjóðverjar best að vígi eftir fyrstu umferð en þjóðirnar mætast í annarri umferð keppninnar á laugardaginn kl. 13.30 í ZAG Arena í Hannover. Tvö lið af fjórum tryggja sér farseðil á Ólympíuleikana. Þjóðverjar unnu fyrr í dag Alsírbúa, 41:29.
Ivan Martinović skoraði níu mörk og var markahæstur í króatíska liðinu. Zvonimir Srna skoraði sex mörk, Mario Šoštarić fimm. Mykola Bilyk skoraði átta mörk fyrir austurríska liðið og Janko Bozovicm fimm.
Leik Króata og Austurríkismanna var streymt á handbolti.is eins og viðureign Þýskalands og Alsír og Spánar og Barein.