Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, segir í samtali við handbolta.is að í ljósi umræðunnar síðasta sólarhring hafi HSÍ sent formönnum allra félaga í Olísdeildinni póst í dag þar sem þeir eru beðnir um að svara því afdráttarlaust, og sem allra fyrst, hvort það sé vilji þeirra að keppni hefjist í næstu viku og að leikið verði einnig annan sunnudag. Reynist vilji til þess standi ekki á HSÍ að blásið verði til leiks.
Róbert furðar sig á að menn skelli skuldinni á Handknattleikssambandið vegna þess að ekki standi til að keppni hefjist að marki í Olísdeild karla fyrr en 9. maí. Það hafi verið vilji HSÍ og tillaga á formannafundi á miðvikudaginn að byrja í næstu viku. Þeir fáu sem tjáðu sig á fundinum hafi talið það óráðlegt þar sem hugsanlega væri gengið nærri heilsu leikmanna.
Enginn tók til máls
„Í framhaldinu tók enginn formaður til máls og barðist fyrir að byrja á fimmtudaginn. Þar af leiðandi drógum við þær ályktanir eðli málsins samkvæmt að það væri almennur vilji hreyfingarinnar að byrja síðar. Eftir því unnum við okkar hugmyndir enda er það hlutverk sambandsins að endurspegla vilja hreyfingarinnar eins langt og hægt er,“ segir Róbert sem staddur er í Ljubljana með kvennalandsliðinu sem leikur þar á morgun fyrri leik sinn við Slóveníu í umspili um sæti á HM.
Hagsmunir HSÍ að byrja sem fyrst
„Það var og er vilji HSÍ að byrja sem fyrst enda hagsmunamál að vera í sviðsljósinu og halda á lofti okkar kraftmikla starfi. Þess vegna lagði HSÍ til á formannafundinum að byrja í næstu viku,“ segir Róbert sem hefur verið í sambandi við félögin í dag.
Sé vilji byrjum við í næstu viku
„Vegna umræðunnar þá höfum við í dag sent félögunum endurskoðun á leikjadagskránni þar sem gert er ráð fyrir að byrja í næstu viku. Þegar svör hafa borist frá öllum þá liggur væntanlega skýrt fyrir hver afstaða félaganna er. Komi í ljós að vilji sé fyrir hendi að byrja fyrr munum við hjá HSÍ verða manna glaðastir að setja leiki í Olísdeild karla á dagskrá í næstu viku,“ segir Róbert.
Formanna að tjá sig
Róbert undirstrikar að vissulega sé ákvörðun í þessum efnum alltaf hjá sambandinu. Afstaða félaganna geti verið mismunandi eftir stöðu þeirra hverju sinni. Gera verði kröfu til þess að þeir sem taka þátt í formannafundum af hálfu félaganna þar sem leitað er eftir afstöðu til mála að þeir lýsi skoðun sinni, félagsmanna sinna og þjálfara svo hægt sé að draga réttar ályktanir hver vilji hreyfingarinnar er. „Það er formannanna að tjá sig,“ segir Róbert.
Ekki leikið í landsleikjaviku
Róbert segir það vera skýra afstöðu HSÍ að leika ekki í landsleikjahléinu, hvorki núna né á öðrum tímum.
„Við getum ekki þvingað félög til þess að leika án landsliðsmanna. Við erum háð því með okkar landslið að félögin gefi þá eftir í landsleiki. Við stöndum ekki vegi fyrir að félög gefi leikmenn sína eftir í landsleiki með því að setja leiki í deildarkeppni eða í bikarkeppni ofan landsleikjaviku og neyða lið til þess að leika án sinna landsliðsmanna. Gerðum við það værum við að senda röng skilaboð til félaganna, skilaboð sem vinna gegn okkar eigin afreksstarfi.
Við leggjum mikið upp úr deildarkeppninni eins og afreksstarfinu. Þetta tvennt þarf að hanga saman,“ segir Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands.