„Það var margt gott í okkar leik og við erum nokkuð ánægðir þótt það sé auðvitað aldrei gaman að tapa,“ sagði Kristinn Björgúlfsson, þjálfari karlaliðs ÍR, eftir sjö marka tap fyrir ÍBV í Olísdeild karla í kvöld en leikið var í Austurbergi.
„Ég sagði við mína menn fyrir leik að ef við töpum þá skyldi það að minnsta kosti vera með þeim hætti að við gætum gengið út úr íþróttahúsinu eftir leik með beint bak. Við gerum það því menn lögðu sig alla fram í leikinn þótt það hafi því miður ekki dugað til sigurs.
Það hefði verið einfalt á ákveðnum tímapunkti í síðari hálfleik að gefast upp, henda handklæðinu inn í hringinn, en menn gerðu það ekki. Þeir börðust allt til leiksloka þótt á brattann væri að sækja,“ sagði Kristinn ennfremur.
Mikil uppstokkun varð á liði ÍR í sumar og liðinu er ekki spáð góðu gengi í vetur. Kristinn sagði stemninguna í hópnum vera afar góða þrátt fyrir hrakspár. „Það er kannski eðlilegt að okkur séð spáð einu af neðstu sætunum eftir það sem á undan er gengið hjá félaginu. Okkar markmið er að sýna fram á hið gagnstæða. Ég stórefa að mínir menn gefist einhverntímann upp. Það er á hreinu og tæru,“ sagði Kristinn Björgúlfsson, þjálfari karlaliðs ÍR í samtali við handbolta.is í kvöld.