Færeyska kvennalandsliðið í handknattleik kom til Íslands í dag og hélt strax áfram undirbúningi fyrir leikinn við íslenska landsliðið í síðustu umferð undankeppni Evrópumótsins sem fram fer á Ásvöllum á sunnudaginn. Leikurinn hefst klukkan 16 og verður frítt inn í boði Icelandair. Eftir því sem næst verður komist mæta a.m.k. 50 stuðningsmenn með færeyska liðinu.
Færeyska landsliðið æfði í Víkinni eftir miðjan dag meðan að íslenska landsliðið æfði í þriðjungi úr sal í Lambhagahöllinni, heimavelli Fram. Bæði lið æfa á Ásvöllum á morgun en í kvöld verður lagður dúkur á keppnisgólfið í Ásvöllum og salurinn undirbúinn fyrir kappleikinn á sunnudaginn.
Reiknað er með fullt verði út úr dyrum á Ásvöllum á sunnudaginn. Um verður að ræða úrslitaleik um annað sæti riðilsins og gulltryggt sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Austurríki, Ungverjaland og Sviss. Allar líkur eru á að liðið sem hafnar í þriðja sæti riðilsins fljóti inn sem eitt fjögurra liða sem fara áfram með besta árangur í þriðja sæti.
Annað sæti riðilsins getur veitt sæti í þriðja flokki af fjórum þegar dregið verður í riðla lokakeppninnar í 18. apríl í Vínarborg.
Færeyska kvennalandsliðið hefur aldrei verið með í lokakeppni EM. Ísland hefur tekið þátt, 2010 í Danmörku og 2012 í Serbíu.
Ísland vann viðureignina við Færeyinga í Þórshöfn í október, 28:23.
Staðan í 7. riðli:
Svíþjóð | 5 | 5 | 0 | 0 | 181:111 | 10 |
Ísland | 5 | 3 | 0 | 2 | 138:126 | 6 |
Færeyjar | 5 | 2 | 0 | 3 | 143:133 | 4 |
Lúxemborg | 5 | 0 | 0 | 5 | 83:175 | 0 |