Ivan Martinovic tryggði Melsungen annað stigið gegn Flensburg á heimavelli í kvöld þegar liðið mættust í þýsku 1. deildinni í handknattleik Rothenbach-Halle í Kassel. Martinovic jafnaði metin á síðustu sekúndu, 25:25. Daninn Mads Mensah hafði komið Flensburg marki yfir þegar 40 sekúndur voru eftir, af leiktímanum, 24:25. Íslendingar komu mjög við sögu í leiknum hjá báðum liðum.
Elvar Örn Jónsson var markahæstur hjá Melsungen ásamt fyrrnefndum Martinovic. Þeir skoruðu sjö mörk hvor. Arnar Freyr Arnarsson skoraði þrjú mörk í þremur skotum.
Teitur Örn Einarsson lét að sér kveða hjá Flensburg og skoraði m.a. fjögur mörk og átti eina stoðsendingu. Honum var einnig einu sinni vikið af leikvelli.
Simon Pytlick skoraði sex mörk fyrir Flensburg. Johannes Golla, Mads Mesah og Teitur Örn voru næstir á eftir með fjögur mörk hver.
Melsungen var með þriggja marka forskot þegar fyrri hálfleikur var að baki, 13:10.
Flensburg er í fjórða sæti deildarinnar með 42 stig eftir 27 leiki. Liðið er fjórum stigum á undan THW Kiel sem vann Erlangen, 31:27, á heimavelli í kvöld. Kiel á leik til góða á grannliðið.
MT Melsungen situr í sjötta sæti með 36 stig þegar 28 leikjum af 34 er lokið.