„Þessi leikur er ótrúlega mikilvægur fyrir okkur, ekki síst upp á framtíðina. Við höfum beðið lengi eftir þessu tækifæri en við höfum einnig lagt á okkur mikla vinnu til þess að komast í þessa stöðu,“ segir Sunna Jónsdóttir fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik um leikinn við Færeyinga á Ásvöllum í dag í lokaumferð undankeppni Evrópumótsins. Ókeypis aðgangur er leikinn í boði Icelandair.
Skiptir miklu máli
„Annað sætið getur skipti miklu fyrir framhaldið, jafnt vegna lokakeppninnar og eins þegar kemur að undankeppni HM. Við erum staðráðnar í vinna leikinn,“ segir Sunna ennfremur en hún skorar á fólk að mæta og hvetja landsliðið til dáða.
„Það er frítt inn á leikinn á Ásvöllum í boði Icelandair. Mikil og góð stemning hefur myndast á Ásvöllum í síðustu heimaleikjum okkar. Við lofum góðri skemmtun. Ég hvet fólk til þess að koma.“
Sunna segir að leikmenn íslenska landsliðsins beri virðingu fyrir þeim stóru framfaraskrefum sem færeyska landsliðið hefur tekið á síðustu árum. „Þær eiga leikmenn í dönsku sem eru í hlutverkum í dönsku úrvalsdeildinni. Færeyska liðið er öflugt og mjög erfitt að eiga við. Leikurinn verður verðugt verkefni fyrir okkur,“ segir Sunna Jónsdóttir fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik.