Þórsarar knúðu fram oddaleik í undaúrslitarimmu sinni og Harðar í umspili Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld. Þórsarar lögðu Harðaringa, 31:26, í Höllinni á Akureyri eftir að hafa leikið afar vel í síðari hálfleik.
Oddaleikur liðanna verður á Ísafirði á mánudaginn og hefst klukkan 19.30. Sigurliðið mætir Fjölni í einvígi um sæti í Olísdeild á næstu leiktíð. ÍR-ingar eiga þegar sæti víst í deildinni.
Harðarmenn voru sterkari í fyrri hálfleik og höfðu tveggja marka forskot þegar gengið var til búningsherbergja að loknum 30 mínútna leik.
Þórsarar létu það ekki á sig fá heldur sneru vörn í sókn í síðari hálfleik. Þeir höfðu engu að tapa, allt að vinna. Leikmenn náðu fljótlega yfirhöndina vel studdir áhorfendum í Íþróttahöllinni. Sigur Þórsara var sanngjarn eins og þeir léku í síðari hálfleik.
Kristján Páll Steinsson markvörður Þórsliðsins átti frábæran leik og var með nærri 50% hlutfallsmarkvörslu. Brynjar Hólm Grétarsson var allt í öllu í sóknarleiknum.
Mörk Þórs: Brynjar Hólm Grétarsson 11, Friðrik Svavarsson 4, Jón Ólafur Þorsteinsson 3, Aron Hólm Kristjánsson 3, Þormar Sigurðsson 3, Sigurður Ringsted Sigurðsson 2, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Garðar Már Jónsson 1, Halldór Kristinn Harðarson 1, Sveinn Aron Sveinsson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 23.
Mörk Harðar: Jhonatan C. Santos 6, Jose Esteves Neto 4, Guilherme Carmignoli Andrade 3, Daníel Wale Adeleye 3, Tugberk Catkin 3, Axel Sveinsson 3, Kenya Kasahara 2, Óli Björn Vilhjálmsson 1, Otto Karl Kont 1.
Varin skot: Jonas Maier 19.