Bjarki Már Elísson og félagar í ungverska meistaraliðinu Telekom Veszprém eiga fyrir höndum krefjandi leik við Aalborg Håndbold í Álaborg þegar liðin mætast öðru sinni í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Veszprém tókst að snúa við þröngri stöðu á heimavelli í kvöld og vinna með einu marki, 32:31, eftir að hafa verið fimm mörkum undir í hálfleik, 17:12.
Bjarki Már skoraði fimm mörk og var með fullkomna nýtingu í sigrinum nauma. Nedim Remili var markahæstur með sex mörk. Thomas Aoldsen, Mads Hoxner, Aleks Vlah og Rene Antonsen skoruðu fjögur mörk hver fyrir Álaborgarliðið.
Skoruðu 13 mörk gegn þremur
Franska meistaraliðið stendur höllum fæti eftir átta marka tap fyrir Barcelona í París í kvöld, 30:22. Útlitið var ekki slæmt hjá PSG í hálfleik í leiknum í kvöld. Liðið var þremur mörkum yfir, 14:11. Barcelona liðið náði sér hinsvegar mjög vel á strik í síðari hálfleik og skoraði m.a. 13 mörk gegn þremur.
Pólverjinn Kamil Syprzak skoraði sjö mörk fyrir PSG og Feean Solé og Kent Robin Tønnesen skoruðu fjögur mörk hvor.
Dika Mem var markahæstur leikmanna Barcelona með sjö mörk. Melvyn Richardson og Luís Frade skoruðu sex mörk hvor.