Fjórða viðureignin í úrslitum umspils Olísdeildar karla í handknattleik fer fram í kvöld þegar Þór og Fjölnir mætast í Íþróttahöllinni á Akureyri. Flautað verður til leiks klukkan 18.30. Útsending verður frá leiknum á handboltapassanum.
Þór hefur tvo vinninga gegn einum Fjölnismanna sem unnu fyrstu viðureignina, 30:26, eftir framlengingu. Þór jafnaði metin á heimavelli, 25:20, og fylgdi sigrinum eftir með öðrum í þriðju viðureigninni í Fjölnishöllinnni á föstudaginn, 29:27.
Ef Þórsarar vinna leikinn í kvöld tryggja þeir sér sæti í Olísdeildinni á næsta keppnistímabili. Takist Fjölni að vinna verður oddaleikur, hreinn úrslitaleikur á milli liðanna fimmtudaginn 2. maí klukkan 19.30 í Fjölnishöllinni.
Elvar Þór Ólafsson leikmaður Fjölnis hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í þriðja leik liðanna á föstudaginn. Hann verður gjaldgengur með liðinu í kvöld eftir úrskurð aganefndar í gær.
Leikur kvöldsins
Umspil Olísdeildar karla, 4. úrslitaleikur:
Höllin Ak.: Þór – Fjölnir (2:1), kl. 18.30.
Útsending frá leiknum verður í handboltapassanum.