FH og ÍBV mætast í oddaleik í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik í Kaplakrika á sunnudagskvöldið. Flautað verður til leiks klukkan 19.40 en sennilega verður vissara að vera mættur fyrr en síðar.
Sé tekið mið af öllu gauragangnum sem verið hefur utan vallar sem innan í síðustu leikjum liðanna er rétt að vera búinn undir oddaleikinn.
ÍBV vann FH í dramatískum háspennuleik í Vestmannaeyjum í kvöld, 38:37, eftir 60 mínútna leik, tvær framlengingar og vítakeppni. Kári Kristján Kristjánsson skoraði sigurmark ÍBV úr fjórða vítakasti liðsins í keppninni. ÍBV hefur þar með unnið tvær síðustu viðureignir liðanna eftir að hafa tapað tveimur fyrstu leikjunum afar sannfærandi.
FH var yfir lengst af leiksins. ÍBV komst í fyrsta sinn yfir þegar komið var fram í síðari framlenginguna. Jafnt var eftir 60 mínútur, 25:25.
Virtist vera að tryggja sigur
Svo virtist sem Símon Michael Guðjónsson væri að tryggja FH sigurinn 10 sekúndum fyrir lok síðari framlengingar þegar hann skoraði eftir hraðaupphlaup, 34:33. Sú var ekki raunin. Eyjamenn nýttu vel þær sekúndur sem eftir voru og Kári Kristján Kristjánsson skoraði jöfnunarmark af línunni á síðustu sekúndu. Hann gerði einnig út um leikinn í vítakeppninni eins og áður segir.
Aron meiddist
Aron Pálmarsson fór af leikvelli meiddur um miðjan síðari hálfleik segir í umfjöllun Vísis. Eins og nærri má geta munaði svo sannarlega um minna. Handbolta.is er ekki kunnugt um hvort meiðslin eru alvarleg.
Hvað rakst á annars horn í dagskrá dagsins í handboltanum. Eini starfsmaður handbolta.is gat ekki verið á þremur stöðum nánast á sama tíma. Þess vegna er vísað í nánari umfjöllun um leik ÍBV og FH hjá öðrum fjölmiðlum sem hafa ráð á fleiri starfsmönnum. T.d. gerir Vísir leiknum prýðileg skil.
Mörk ÍBV: Elmar Erlingsson 12/8, Daniel Esteves Vieira 6, Kári Kristján Kristjánsson 6/2, Arnór Viðarsson 5, Nökkvi Snær Óðinsson 3, Ívar Bessi Viðarsson 1, Dagur Arnarsson 1/1, Ísak Rafnsson 1, Gabríel Martinez Róbertsson 1, Gauti Gunnarsson 1, Sigtryggur Daði Rúnarsson 1/1.
Varin skot: Petar Jokanovic 21, 38,9% – Pavel Miskevich 2/2, 33,3%.
Mörk FH: Símon Michael Guðjónsson 11/4, Jóhannes Berg Andrason 8/1, Einar Bragi Aðalsteinsson 5, Jón Bjarni Ólafsson 4, Ásbjörn Friðriksson 4/1, Aron Pálmarsson 2, Leonharð Þorgeir Harðarson 2, Birgir Már Birgisson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 15/4, 28,8% – Axel Hreinn Hilmisson 0.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Olís karla: Leikjadagskrá, úrslitakeppni