Erlingur Richardsson og lærisveinar hans í hollenska landsliðinu eru komnir vel áleiðis inn á Evrópumeistaramótið í handknattleik karla á næsta ári. Hollendingar unnu Tyrki í Tyrklandi í kvöld, 32:24, og hafa nú sjö stig í öðru sæti í fimmta riðli undankeppninnar. Slóvenar hafa einnig sjö stig en þeir töpuðu fyrir Pólverjum, 27:26, í Póllandi í kvöld.
Pólverjar hafa sex stig og sækja Hollendinga heim á sunnudaginn í lokaumferðinni. Hvernig sem sá leikur fer bendir flest til þess að liðið sem hafnar í þriðj sæti fimmta riðils verði eitt fjögurra sem kemst inn á EM með bestan árangur liða í þriðja sæti. Hollendingar unnu Pólverja með eins marks mun, 28:27, í fyrri viðureign þjóðanna í mars.
Í dag og í kvöld bættust Frakkar, Norðmenn, Hvít-Rússar og Portúgal í hóp þeirra þjóða sem senda þátttökulið til keppni á EM sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar á næsta ári. Portúgal vann Ísrael í Tel Aviv í kvöld, 41:29, en lið þjóðanna eru með Íslendingum og Litáum í riðli.
Fyrir voru Serbar, Þjóðverjar, Rússar, Danir, Norður-Makedóníumenn og Svíar búnir að tryggja sér farseðilinn á EM. Einnig taka Evrópumeistarar Spánverja, silfurlið EM í fyrra, Króatar, auk landsliða gestgjafanna, Ungverja og Slóvena þátt í mótinu sem fram fer frá 13. til 31. janúar á næsta ári.
Úrslit dagsins:
1.riðill:
Grikkland – Serbía 25:27 (14:12)
Staðan: Serbía 11(6), Frakkland 7(5), Grikkland 4(5), Belgía 0(6).
2.riðill:
Bosnía – Þýskaland 24:26 (15:15)
Eistland – Austurríki 27:31 (13:18)
Staðan: Þýskaland 10(5), Bosnía 4(5), Austurríki 4(5), Eistland 2(5).
4.riðill:
Litáen – Ísland 29:27 (13:9)
Ísrael – Portúgal 29:41 (13:22)
Staðan: Portúgal 8(5), Ísland 6(5), Litáen 4(5), Ísrael 2(5).
5.riðill:
Tyrkland – Holland 24:32 (12:15)
Pólland – Slóvenía 27:26 (12:10)
Staðan: Slóvenía 7(5), Holland 7(5), Pólland 6(5), Tyrkland 0(5).
6.riðill:
Noregur – Lettland 36:17 (17:11)
Ítalía – Hvíta-Rússland 31:32 (16:16)
Staðan: Noregur 8(5), Hvíta-Rússland 8(5), Ítalía 2(5), Lettland 2(5).