Aron Pálmarsson verður ekki með FH gegn ÍBV í oddaleik liðanna í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld. Eftir því sem handbolti.is kemst næst er Aron tognaður á nára. Hann er ekki á leikskýrslu sem gefin var út rétt í þessu.
Viðureign FH og ÍBV hefst klukkan 19.40 í Kaplakrika. Sigurlið leiksins í kvöld leikur til úrslita við Val eða Aftureldingu um Íslandsmeistaratitilinn.
Til viðbótar þá tekur Jakob Martin Ásgeirsson, leikmaður FH, út síðari hluta tveggja leikja keppnisbanns sem hann fékk eftir þriðju viðureign liðanna.
Nærri tveir sólarhringar eru síðan uppselt varð á viðureignina, 2.200 miðar voru til sölu og runnu þeir út eins og heita lummur.
Mikil öryggisgæsla er í Kaplakrika vegna leiksins. Tugir öryggisvarða eru á svæðinu til þess að halda uppi röð og reglu er þörf verður á.
Handbolti.is fylgist með leiknum í textalýsingu.