FH-ingar voru átta inni á leikvellinum þegar leikur hófst á ný eftir að Stjarnan tók leikhlé þegar fjórar sekúndur voru til leiksloka í viðureign liðanna í Olísdeild karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld. Þetta sést skýrt á myndinni hér fyrir neðan sem smellt er af útsendingu Stöðvar2Sports í kvöld.
Með réttu áttu FH-ingar að vera sjö á leikvellinum þegar leikurinn hófst á nýjan leik. Hvorki dómarar né eftirlitsmaður tóku eftir að FH-ingar voru átta í stað sjö. Svo virðist hinsvegar vera að leikmaður FH átti sig á þessu og gangi út af áður en leikurinn var úti. Það sést á upptöku af lokasekúndunum.
Þetta er annað atvikið í vikunni þar sem lið er með of marga leikmenn inni á leikvellinum að loknu leikhléi. Á miðvikudagskvöld léku Víkingar eina sókn og eina vörn með einum of marga leikmenn inni á vellinum gegn Fjölni í Grill 66-deildinni áður en upp komst. Í því tilviki var refsitíma leikmanns Víkings ekki lokið þegar leikhlé var tekið. Fjölgaði leyfilegum fjölda leikmanna á vellinum þá eins og í kjölfar leikhlésins.
Leiknum í Kaplakrika lauk með jafntefli, 30:30, og jafnaði Einar Örn Sindrason metin fyrir FH á lokasekúndunni. Einar Örn sést ganga fram völlinn á myndinni hér að ofan.