Hollenska landsliðið, undir stjórn Erlings Richardssonar, innsiglaði í dag sæti í lokakeppni EM í handknattleik í annað mótið í röð. Hollendingar unnu Pólverja á heimavelli í lokaumferðinni, 32:30, og hafna í öðru sæti 5. riðils með níu stig, eins og Slóvenar sem hrepptu efsta sætið. Slóvenar unnu Tyrki, 39:24. Erlingur var einnig við stjórnvölin hjá hollenska landsliðinu þegar það komst inn á EM 2020.
Þar með verða þrír íslenskir landsliðsþjálfara við stjórnvölin hjá liðunum á EM á næsta ári því auk Erlings verður Alfreð Gíslason með þýska landsliðið og Guðmundur Þórður Guðmundsson með það íslenska.
Pólverjar höfnuðu í þriðja sæti riðilsins og ná nær örugglega inn á EM sem eitt þeirra lið sem náði bestum árangri í þriðja sæti. Fjögur lið sem hafna í þriðja sæti riðlanna fer inn inn á EM ásamt tveimur efstu liðum út hverjum af riðlunum átta í undankeppninni.
Hollenska landsliðið var yfir allan leikinn í dag gegn Pólverjum og var einu marki yfir í hálfleik, 17:16.
Hollenska landsliðið, undir stjórn Erlings, vann fjóra leiki í riðlakeppninni, gerði eitt jafntefli og tapaði aðeins einum leik, gegn Slóvenum í Hollandi. Árangurinn er enn athygliverðari fyrir þær sakir að Erlingur og Hollendingar unnu Pólverja á útivelli og náðu í stig á útivelli gegn Slóvenum.