Landsliðskonan þrautreynda, Hildigunnur Einarsdóttir, hefur skrifað undir nýjan eins árs samning við Íslands,- deildar,- og bikarmeistara Vals. Valur greinir frá þessum tíðindum í dag.
Hildigunnur kom aftur til Vals fyrir þremur árum eftir að hafa leikið með félagsliðum í Austurríki, Noregi, Svíþjóð í Þýskalandi um níu ára skeið. Frá fyrsta degi hefur Hildigunnur verið kjölfesta sterks Valsliðs, jafnt í vörn sem sókn en liðið tapaði aðeins einum leik af 30 á nýliðnu keppnistímabili og vann öll mót sem það tók þátt í innanlands.
Stefnir ótrauð á EM
Fyrir utan að standa í ströngu með Valsliðinu hefur Hildigunnur átt fast sæti í landsliðinu síðustu árin og klæðst landsliðstreyjunni alls 106 sinnum, m.a. á HM í lok síðasta árs. Mörkin með landsliðinu eru 124. Hildigunnur stefnir ótrauð á að tryggja sér sæti í landsliðinu sem tekur þátt í Evrópumótinu í desember eftir því sem fram kemur í samtali handbolta.is við hana eftir að Valur varð Íslandsmeistari í síðasta mánuði.
Sjá einnig: