Markvörðurinn Phil Döhler reið baggamuninn fyrir FH-inga er þeir lögðu Aftureldingu með þriggja marka mun, 30:27, í Olísdeild karla í handknattleik í Kaplakrika í upphafsleik 18. umferðar. FH var með fjögura marka forskot í hálfleik, 17:13.
Döhler varði vítakast og tvö opin færi á síðustu mínútunum og kom í veg fyrir að Aftureldingarmenn næðu að komast yfir.
FH-liðið var með frumkvæðið fram yfir miðjan síðari hálfleik þegar agaleysi greip um sig meðal heimamanna. Þeir voru með fimm marka forskot, 22:17. Aftureldingarmenn sneru við taflinu og jöfnuðu metin í 24:24 þegar tíu mínútur voru til leiksloka og aftur 26:26 sjö mínútum fyrir leikslok. Guðmundur Árni Ólafsson gat komið Aftureldingu yfir en Döhler varði vítakast hans og FH-ingar náðu að klóra sig í gegnum lokakaflann með dyggri aðstoð frá Döhler auk þess sem Afturelding fékk dæmdan á sig ruðning í tvígang.
FH situr nokkuð örugglega í öðru sæti deildarinnar með 26 stig og á leik til góða á móti KA. Aftureldingarmenn eru á barmi þess að komast í úrslitakeppnina. Liðið er í 7. sæti og gæti alveg svo farið að það hafni fyrir neðan strikið þegar dæmið verður gert upp eftir 22 umferðir.
Mörk FH: Birgir Már Birgisson 9, Einar Rafn Eiðsson 6/2, Jón Bjarni Ólafsson 4, Ásbjörn Friðriksson 4, Egill Magnússon 3, Jakob Martin Ásgeirsson 2, Arnar Freyr Ársælsson 1, Einar Örn Sindrason 1.
Varin skot: Phil Döhler 17, 38,6%.
Mörk Aftureldingar: Þorsteinn Leó Gunnarsson 6, Bergvin Þór Gíslason 6, Blær Hinriksson 4/2, Þrándur Gíslason Roth 4, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 3, Guðmundur Árni Ólafsson 2/1, Einar Ingi Hrafnsson 1, Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha 1.
Varin skot: Björgvin Franz Björgvinsson 5, 23,8% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 1, 6,7%.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.