Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, vann magnaðan sigur á rúmenska landsliðinu í sannkölluðum naglbít, 30:29, í annarri umferð æfingamóts í Skopje í Norður Makedóníu í dag. Íslenska liðið skoraði fjögur af síðustu fimm mörkum leiksins auk þess sem Anna Karólína Ingadóttir gerði sér lítið fyrir og varði vítakast.
Staðan var jöfn eftir fyrri hálfleik, 17:17. Úrslitin réðust á síðustu sekúndum. Rúmenska liðið er afar öflugt og hafnaði m.a. í þriðja sæti á Evrópumóti 19 ára landsliða fyrir ári.
Leikurinn er liður í undirbúningi fyrir heimsmeistaramót 20 ára landsliða sem hefst í Skopje á miðvikudaginn. Síðasti leikur íslenska liðsins á mótinu verður annað kvöld en það skýrist ekki fyrr en í kvöld gegn hverjum sú viðureign verður.
Sóknarleikurinn var mjög góður
„Sóknarleikurinn okkar var mjög góður í dag. Leikmenn léku taktíkarnar mjög vel. Ég var gríðarlega ánægður með uppstillan sóknarleik okkar,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U20 ára landsliðsins við handbolta.is rétt í þessu.
Massívara þegar á leið
„Sama má segja um varnarleikinn. Við tefldum fram bæði 6/0 og 5/1 vörn. Framan af vorum við í smábrasi en eftir því sem á leikinn leið varð varnarleikurinn massívari auk þess sem við fengum mikilvæga bolta varða hjá okkar markvörðum,“ sagði Ágúst Þór en þetta var annar sigur íslenska liðsins í æfingamótinu. Það lagði landslið Chile í gær, 32:20.
Liðsheildin er mjög sterk
„Fyrir utan sigurinn og frammistöðuna þá var það mjög jákvætt að fá góða frammistöðu frá mörgum leikmönnum í leiknum í dag og í gær. Við höfum nýtt breiddina í hópnum vel og leikmenn hafa svarað með góðu framlagi. Liðsheildin er mjög sterk. Margar leggja í púkkið og það er nokkuð sem við leggjum ríka áherslu á. Þetta var frábær sigur en við erum áfram með báða fætur á jörðinni en úrslitin sýna að allt er mögulegt þegar allar leggjast á eitt,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson sem þjálfar U20 ára landsliðið ásamt Árna Stefáni Guðjónssyni.
Eins og í gær sat Tinna Sigurrós Traustadóttir yfir vegna meiðsla.
Mörk Íslands: Elín Klara Þorkelsdóttir 6, Lilja Ágústsdóttir 6, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 5, Elísa Elíasdóttir 3, Embla Steindórsdóttir 2, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 2, Hildur Lilja Jónsdóttir 2, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 1, Brynja Katrín Benediktsdóttir 1, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1, Inga Dís Jóhannsdóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 6, Anna Karólína Ingadóttir 2.