Íslenska landsliðið tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik, hjá leikmönnum 20 ára og yngri, með stórkostlegri frammistöðu og 12 marka sigri á landsliði Norður Makedóníu, 29:17, í annarri umferð H-riðils í dag. Leikið var í Boris Trajkovski Sports Center, þjóðarhöllinni í Skopje í Norður Makedóníu.
Þar með hefur íslenska liðið unnið tvo fyrstu leiki sína og er öruggt með annað af tveimur efstu sætum riðilsins og einnig að taka með tvö stig inn á næsta stig mótsins, sem er afar mikilvægt.
Staðan í hálfleik var jöfn, 11:11, eftir að ekki hafði blásið byrlega í upphafi. Íslenska liðið náði sér engan veginn á strik í upphafi og eftir um 16 mínútna leik var staðan, 8:2, fyrir Norður Makedóníu. Eftir leikhlé og ákveðnar breytingar á vörninni urðu pólskipti á leiknum. Leikmenn Norður Makedóníu komu nánast að læstum dyrum það sem eftir var. Ísland skoraði níu mörk gegn þremur fram að hálfleik.
Áfram hélt stórleikur íslensku varnarinnar í síðari hálfleik auk þess sem markverðirnir voru vel með á nótunum. Vörnin skilaði hraðaupphlaupum og rétt eftir miðjan síðari hálfleik var forskot Íslands komið í 10 mörk. Ekki var slakað á og mestur varð munurinn 13 mörk. Ótrúlegir yfirburðir íslenska landsliðsins gegn leikmönnum Norður Makedóníu á þeirra heimavelli.
Síðasti leikur íslenska landsliðsins í riðlakeppninni verður við bandaríska landsliðið sem hefur tapað með talsverðum mun tveimur fyrstu leikjum sínum á mótinu. Leikurinn hefst klukkan 17 á morgun. Að vanda mun handbolti.is fylgjast með framvindunni.
Mörk Íslands: Elín Klara Þorkelsdóttir 6, Inga Dís Jóhannsdóttir 4, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 3, Eísa Elíasdóttir 3, Lilja Ágústsdóttir 3, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 3, Embla Steindórsdóttir 2, Tinna Sigurrós Traustadóttir 2, Ethel Gyða Bjarnasen 1, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 7, 35% – Anna Karólína Ingadóttir 4/3, 50%.
Mörk Norður Makedóníu: Emilijana Rizoska 7/5, Iva Madenovska 4, Mihaela Kraleva 3/2, Nina Popova 2, Sara Stefanoska 1.
Varin skot: Matea Churlinovska 12/2, 35% – Veronika Gjorgjievska 1, 13%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í beinni textalýsingu hér fyrir neðan.