„Þetta er hrikalega spennandi lið sem varð Evrópumeistari í fyrra og hafnaði í þriðja sæti á HM 18 ára fyrir tveimur árum. Það er geggjað að mæta svona sterku liði,“ sagði Embla Steindórsdóttir einn leikmanna U20 ára landsliðs kvenna í handknattleik þegar handboltis.is rabbaði við hana eftir æfingu landsliðsins í Boris Trajkovski íþróttahöllinni í Skopje í Norður Makedóníu í kvöld. Á morgun mætir íslenska landsliðið því ungverska í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins.
Embla og stöllur höfðu nýlokið við að fara yfir helstu atriði leiksins á morgun undir stjórn þjálfaranna Ágústs Jóhannssonar og Árna Stefáns Guðjónssonar. Sólarhringur er í næsta leik á HM en úrslit hans sker úr um hvort liðið tekur sæti undanúrslitum heimsmeistaramótsins.
„Við ætlum að mæta trylltar og ekki gefa neitt eftir,“ sagði Embla ákveðin en einnig viss um að allar væri þær búnar að ýta tapinu fyrir Portúgal í gær, 26:25, til hliðar.
Embla segir það ljóst að framfarir eru að verða jafnt og þétt í kvennahandbolta á Íslandi eins og árangur U20 ára landsliðsins undirstrikar en það er fyrst íslenskra kvennaliða í þessum árgangi til þess að komast í átta liða úrslit á HM. Þær ruddu sömu braut fyrir tveimur árum með sæti í átta liða úrslitum HM 18 ára landsliða. „Eftir nokkur ár verðum við komin á sama stað með A-landsliðið.“
Lengra myndskeiðsviðtal við Emblu er að finna í efst í þessari frétt.
Leikur Íslands og Ungverjalands á HM á morgun hefst klukkan 16. Handbolti.is er í Skopje og fylgist með leiknum í textalýsingu auk þess sem hlekkur verður á streymi frá viðureigninni auk viðtala í kjölfar leiksins.
HMU20: Dagskrá og úrslit síðustu leikdagana