Grótta vann ÍR með eins marks mun í háspennuleik í kvöld, 16:15, í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum umspilsins um sæti í Olísdeild kvenna á næsta keppnistímabili. Leikið var í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi og var heimaliðið með eins marks forskot að loknum fyrri hálfleik, 8:7.
Liðin mætast öðru sinni í Austurbergi á laugardaginn. Takist ÍR á laugardaginn að svara fyrir tapið í kvöld kemur til oddaleiks í Hertzhöllinni á þriðjudagskvöld.
Varnarleikur og markvarsla var aðal liðanna í kvöld í miklum baráttuleik. Sannkölluðum naglbít. M.a. varði Soffía Steingrímsdóttir, markvörður Gróttu 13 skot, sem er liðlega 46% hlutfallsmarkvarsla.
Karen Ösp Guðbjartsdóttir, markvörður ÍR, átti einnig stórleik í markinu. Hún var með 48% hlutfallsmarkvörslu, varði 14 skot.
Mörk Gróttu: Tinna Valgerður Gísladóttir 6, Katrín Anna Ásmundsdóttir 2, Ágústa Huld Gunnarsdóttir 2, Katrín Helga Sigurbergsdóttir 2, Rut Bernódusdóttir 2, Steinunn Guðjónsdóttir 1, Anna Lára Davíðsdóttir 1.
Mörk ÍR: Hildur María Leifsdóttir 5, Stefanía Ósk Hafberg 3, Matthildur Lilja Jónsdóttir 2, Ólöf Marín Hlynsdóttir 2, Adda Sólbjört Högnadóttir 1, Auður Valdimarsdóttir 1, Sylvía Jónsdóttir 1.