„Þetta er geggjaður hópur sem er ótrúlega gaman að vera hluti af auk þess sem reynslan er mikil af því að fá tækifæri til þess að leika við sterk lið,“ segir ÍR-ingurinn Sylvía Sigríður Jónsdóttir sem er taka þátt í sínu fyrsta verkefni með yngri landsliðum Íslands í handknattleik á heimsmeistaramóti 20 ára landsliða sem lýkur í Skopje á morgun þegar íslenska liðið mætir Sviss í leiknum um sjöunda sætið. Leikurinn hefst klukkan 10.
„Það er líka gaman að mæta mismunandi liðum sem leika mörg öðruvísi handbolta en gerður er heima á Íslandi og læra af þeirri reynslu,“ segir Sylvía Sigríður í samtali við handbolta.is í Skopje í hádeginu í dag.
Sylvía Sigríður segist hafa kynnst flestum stelpunum í liðinu í ferðinni enda eru engar þeirrar samherjar hjá ÍR. Auk þess þá segir hún mikilvægt að komast í kynni við aðra þjálfara sem gefa ráð og heyra af fleiri hugmyndum.
Eftir þessa löngu törn með U20 ára landsliðinu tekur við stutt frí þegar komið verður heim til Íslands. „Ég er með æfingaprógramm frá Sollu (Sólveigu Láru Kjærnested þjálfara) og síðan byrjum við að æfa saman hjá ÍR eftir verslunarmannahelgi. Svo það er nóg að gera,“ sagði Sylvía Sigríður Jónsdóttir leikmaður U20 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is.
Lengra myndskeiðsviðtal við Sylvíu Sigríði er efst í þessari frétt.
HMU20: Dagskrá og úrslit síðustu leikdagana