- Slóvenski handknattleiksmaðurinn Jure Dolenec er á leið frá Barcelona í sumar eftir því sem fjölmiðlar á Balkanskaganum segja. Dolenec mun vera búinn að semja við franska liðið Limoges. Dolenec, sem er 33 ára gamall, hefur verið í herbúðum Barcelona síðustu fjögur ár. Hann þekkir vel til í frönskum handknattleik eftir að hafa verið leikmaður Montpellier frá 2013 til 2017. Landar Dolenec, Dragan Gajic og Igor Zabic, er liðsmenn Limoges sem hefur átt góðu gengi að fagna í frönsku 1. deildinni á leiktíðinni.
- Patrick Wiencek leikur ekki með Kiel næstu fjórar vikur, hið minnsta. Hann meiddist á fótlegg eftir að hafa lent í samstuði við Luc Steins leikmann PSG í viðureign Kiel og PSG í fyrrakvöld.
- Raúl Alonso þjálfari Meshkov Brest í Hvíta-Rússlandi hefur verið ráðinn íþróttastjóri þýska 1. deildarliðsins HC Erlangen frá og með 1. júlí. Alonso þekkir vel til í Þýskalandi en hann flutti þangað á unglingsárum og lék með nokkrum félagsliðum auk þess sem hann sinnti þjálfun. M.a. var hann um skeið aðstoðarmaður Alfreðs Gíslasonar hjá Kiel og var þjálfari unglingaliðs félagsins.
- Eftir að hafa unnið slóvenska meistaratitilinn átta ár í röð þá bendir margt til þess að RK Celje Lasko verði að játa sig sigrað í keppninni þetta árið eftir tap fyrir Gorenje Velenje, 30:22. Gorenje stendur best að vígi fyrir lokasprettinn en Celje og Trimo Trebnje eiga veika von um að vinna meistaratitilinn.
- Veselin Vujovic tekur við þjálfun Vardar Skopje í sumar eftir því sem fjölmiðlar í Norður-Makedóníu fullyrða. Vujovic þekkir til hjá félaginu. Hann þjálfaði lið félagsins frá 2006 til 2009 og aftur frá 2011 til 2013 og er afar vinsæll á meðal stuðningsmanna Vardar. Vujovic er nú þjálfari Borac Banja Luka í Bosníu sem er á góðri leið með að verða landsmeistari.
- Auglýsing -