Leikstjórnandinn og skyttan Gunnar Hrafn Pálsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Gunnar Hrafn er 22 ára gamall og er uppalinn hjá Gróttu þar sem hann hefur leikið með öllum yngri flokkum félagsins auk þess að hafa verið um skeið með Stjörnunni.
Gunnar Hrafn dró fram handboltaskóna í haust sem leið eftir að hafa lagt þá tímabundið á hilluna. Hann æfði með Gróttuliðinu seinni hluta vetrar og lék aðallega með ungmennaliði félagsins. Þar fór hann mikinn og skoraði 116 mörk eða 9,7 mörk að meðaltali í leik.
„Það eru mikil gleðitíðindi að Gunnar Hrafn klæðist áfram Gróttubúningnum. Það eru miklar vonir bundnar við hann enda hæfileikaríkur leikmaður. Það verður gaman fyrir stuðningsfólk að fylgjast með Gunnari Hrafni og Gróttuliðinu etja kappi við KA í fyrsta leik Olísdeildarinnar 5. september næstkomandi,“ segir í tilkynningu frá Gróttu.