Alþjóða handknattleikssambandið hefur ákveðið að veita ungverska meistaraliðinu Veszprém keppnisrétt á heimsmeistaramóti félagsliða í karlaflokki sem fram fer frá 27. september til 3. október í Kaíró í Egyptalandi. Áður hafði verið greint frá að boðssætið kæmi í hlut franska meistaraliðsins PSG. Boðið virðist hafa verið afturkallað.
Eftir nokkur ár í Sádi Arabíu hefur heimsmeistaramótið verið flutt í heimaland forseta Alþjóða handknattleikssambandsins. Sádar vildu ekki endurnýja samning sinn um mótahaldið eftir samningur rann út eftir mótið á síðasta vetri. Sautján ár eru liðin síðan heimsmeistaramótið fór síðast fram í Kaíró.
Um leið og mótið hefur verið fært landa á milli hefur verið dregið úr umfangi mótsins. Níu lið taka þátt í stað 12.
SC Magdeburg hefur unnið heimsmeistaramót félagsliðs síðustu tvö ár.
Þess má til gamans geta að Veszprém var síðast með í heimsmeistaramóti félagsliða fyrir níu árum. Lið félagsins tapaði þá fyrir Füchse Berlin undir stjórn Erlings Richardssonar í undanúrslitaleik.
Þátttökulið á HM félagsliða karla 2024:
Gestgjafi: Al Ahly (Egyptalandi).
Ríkandi meistarar: SC Magdeburg (Þýskalandi).
Asía: Khaleej Club (Sádi Arabíu).
Afríka: Zamalek (Egyptalandi).
Evrópumeistarar: FC Barcelona (Spáni)
Suður- og Mið Ameríka: Handebol Taubaté (Brasilíu).
Boðskort: Veszprém HC (Ungverjalandi).
Þáttakendur frá Norður Ameríu og Karabíahafseyja annarsvegar og Eyjaálfu hinsvegar liggja fyrir síðar í þessum mánuði.