- Auglýsing -
- Auglýsing -

Viljum ná eins miklu út úr mótinu og mögulegt er

- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik karla í handknattleik, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, hefur keppni í riðlakeppni átta liða úrslita Evrópumótsins í Slóveníu í dag með viðureign við Portúgal sem ekki hefur tapað leik á mótinu til þessa. Flautað verður til leiks í Dvorana Zlatorog keppnishöllinni í Celje kl. 12.20.

Halldór Jóhann Sigfússon og Einar Andri Einarsson þjálfarar íslenska landsliðsins hafa m.a. legið yfir upptökum af leikjum Portúgala á mótinu til þess að búa íslenska liðið sem best undir viðureignina í dag.

Ekki ósvipað A-landsliðinu

„Við teljum okkur vita orðið margt um portúgalska liðið,“ sagði Halldór Jóhann þegar handbolti.is hitti hann fyrir utan hótel íslenska liðsins í Lasko í síðdegis í gær. „Þetta er mjög fínt lið, týpiskt portúgalskt landslið, ekki ósvipað A-landsliðinu en hefur sín einkenni. Liðið er með stóra og góða línumenn og leikur hraðann og skemmtilegan bolta. Eins leikur liðið spænska sex núll vörn og hefur á að skipa mjög góðum markverði. Það er ljóst að við þá verður erfitt að eiga en um leið áhugavert og skemmtilegt verkefni,“ segir Halldór Jóhann.
Portúgal var í riðli með Grikkjum og Serbum og unnu lið beggja þjóða mjög örugglega.

Sérstakur leikur

Halldór Jóhann segir viðureign Portúgal við Þjóðverja í lokaumferð riðlakeppninnar hafa verið mjög sérstaka. Til að mynda skoruðu Þjóðverjar aðeins eitt mark á síðasta stundarfjórðungi leiksins. Portúgal vann með fjögurra marka mun, 21:17.

Breiddin góð

„Annars er portúgalska liðið mjög gott. Skyttan vinstra megin er öflug, miðjumaðurinn snjall og línumennirnir stórir og sterkir. Fyrir utan að vera með öfluga örvhenta skyttu. Breiddin er góð,“ segir Halldór Jóhann ennfremur.

Fórum með ákveðnar væntingar

Halldór Jóhann segir íslenska liðið koma nokkuð pressulaust til leiks. „Við fórum með ákveðnar væntingar inn í þetta mót. Markmiðið var fyrst og fremst að tryggja okkur inn á HM 21 árs landslið á næsta ári. Einnig sáum við að ef Úkraínumenn væru slakir þá gætu úrslitin spilast þannig fyrir okkur að við gætum unnið aukamörk gegn þeim. Síðan lögðum við Pólverjana einnig með góðum mun. Ljóst var að Svíarnir yrðu erfiðir sem raun varð á þótt úrslitum og leikurinn í síðari hálfleik gefi ekki rétta mynd af báðum liðum, að mínum mati eftir að hafa horft á leikinn aftur.“

Skemmtilegur glampi í augunum

„Það ætti að vera pressulaust íslenskt lið sem mætir til leiks gegn Portúgölum. Ég veit hinsvegar að strákarnir vilja meira en þeir hafa þegar gert. Það var ansi skemmtilegur glampi í augunum á þeim þegar það varð ljóst að við værum komnir í átta liða úrslit um leið öruggir um að ná markmiði okkar um HM sæti að ári. Sigur í leiknum við Portúgal væri frábær enda viljum við ná eins miklu út úr mótinu og mögulegt er,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon annar þjálfara U20 ára landsliðs karla í samtali við handbolta.is í Lasko í Slóveníu í gær.

Talsvert lengra myndskeiðsviðtal er við Einar Andra efst í fréttinni.

Viðureign Íslands og Portúgals hefst klukkan 12.20 í dag. Handbolti.is er í Slóveníu og fylgir landsliðinu eftir mótið á enda. Bein textalýsing verður úr Dvorana Zlatorog Arena í Celje auk þess sem viðtöl verða við leikmenn og þjálfara í kjölfar leiksins.

EMU20 karla: Leikir, úrslit og staðan, riðlakeppni

Yngri landslið.

Leikir Íslands í milliriðlakeppni átta liða úrslita:
Portúgal - Ísland, 15. júlí kl. 12.20
Ísland - Austurríki, 16. júlí, kl. 10.
Spánn - Ísland, 18. júlí, kl. 12.20.
- Allir leiktímar eru miðaðir við tímann á Íslandi.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -