„Það er geggjuð reynsla að taka þátt í svona móti,“ segir vinstri hornamaðurinn úr Val og einn leikmanna 20 ára landsliðs karla í handknattleik sem nú tekur þátt í Evrópumótinu í Slóveníu. Þetta er annað árið sem Daníel Örn Guðmundsson stendur í stórræðum með landsliðinu. Hann var einnig í landsliðshópnum sem tók þátt í heimsmeistaramóti 19 ára landsliða í Króatíu í ágúst á síðasta ári.
„Hlutverk mitt er aðeins minna en í fyrra. Það er í góðu lagi. Ég er tilbúinn hvenær sem er til að koma inn á leikvöllinn, reiðubúinn að gera mitt besta,“ segir Daníel Örn þegar handbolti.is hitti hann að máli eftir hádegið í dag á hóteli landsliðsins í Laško hvar hópurinn hefur verið frá 9. júlí.
„Ég spilaði fyrri hálfleikinn í gær [gegn Svíum] og hefði viljað standa mig betur og við vildum vinna leikinn,“ sagði Daníel Örn sem hefur mikinn metnað á handknattleiksvellinum, hvort sem það er í leikjum með landsliðinu eða félagsliði sínu, Val.
Á morgun mætir íslenska liðið Noregi. „Við ætlum að mæta klárir til leiks og vinna síðasta leikinn. Ná sjöunda sætinu. Þetta er síðasti leikurinn en við leggjum allt í sölurnar,“ segir Daníel Örn Guðmundsson.
Eftir komuna heim í næstu viku fer Daníel Örn að búa sig undir nýtt keppnistímabil með Val. Framundan eru tveir leikir í forkeppni Evrópudeildarinnar í fyrstu viku september. Daníel Örn segir ala þá von í brjósti að fá fleiri tækifæri með Val á næstu leiktíð. Lið Vals er hinsvegar gott og mikil samkeppni um stöður.
Lengra viðtal við Daníel Örn er efst í þessari frétt.
Íslenska landsliðið leikur síðasta leik sinn á Evrópumótinu á morgun, sunnudag. Þá verður bitist við Norðmenn um 7. sæti mótsins. Flautað verður til leiks klukkan 10 og verður handbolti.is vitanlega í keppnishöllinni í Celje.
EMU20 karla: Leikir, úrslit og staðan, milliriðlar og sætisleikir
Hef náð einhverjum mínútum í flestum leikjum