Dragan Nachevski, fyrrverandi formaður dómaranefndar Handknattleikssambands Evrópu, hefur verið úrskurðaður í tveggja ára bann frá störfum innan handknattleiks í Evrópu. Auk þess verður hann að greiða 5.000 evrur í sekt, jafnvirði um 750 þúsund króna. Þetta er niðurstaða áfrýjunardómstóls, EHF, í morgun. Niðurstaðan er samhljóða úrskurði aganefndar EHF í apríl.
Nachevski áfrýjaði úrskurði dómstóls EHF frá 12. apríl en hafði ekkert upp í krafsinsu. Aðeins sömu niðurstöðu sem birt var í morgun.
Úrskurðurinn er vegna máls sem Nachevski blandaðist inní í sjónvarpsþáttum TV2 í Danmörku á síðasta ári. Í þáttunum hitti Nachevski dulbúinn fréttamann TV2 sem þóttist vera útsendari veðmálafyrirtækis í Asíu. Sá reyndi að fá Nachevski í lið með sér til þess að hagræða úrslitum leikja. Nachevski, þá formaður dómaranefndar og stjórnarmaður í framkvæmdastjórn EHF, afþakkaði að taka þátt í hagræðingu úrslita. Honum láðist hinsvegar að tilkynna málið til eftirlitsnefndar EHF. Sú staðreynd er litin mjög alvarlegum augum. Fyrir það var Nachevski fyrst sendur í leyfi frá störfum á síðasta ári og hlaut síðan fyrrgreint þátttökubann og sekt sem stendur óhreyft.
Enn stendur yfir rannsókn á meintri þátttöku Nachevski í málum tengdum hagræðingu úrslita leikja en ásakanir komu fram í þætti TV2, m.a. frá fyrrverandi dómurum. Öll kurl eru þar með ekki komin til grafar í málum Nachevski sem um árabil var valdamesti maður í dómaramálum í evrópskum handknattleik auk þess að vera orðinn innsti koppur í búri Alþjóða handknattleikssambandsins í málum dómara á stórmótum.