Íslenska landsliðið hóf keppni á Evrópumóti 18 ára landsliða karla í Podgorica í Svartfjallandi af miklum krafti í kvöld. Liðið lagði frændur okkar frá Færeyjum með níu marka mun, 32:23, eftir að hafa verið sex mörkum yfir í hálfleik, 15:9. Næsti leikur piltanna verður gegn ítalska landsliðinu á morgun klukkan 17.30. Ítalir unnu Svartfellinga fyrr í dag með tveggja marka mun, 32:30. Eitt lið kemst beint áfram úr hverjum riðli í átta liða úrslit.
Leikur Íslands og Færeyja var jafn fyrstu 20 mínúturnar. Eftir það tóku íslensku piltarnir völdin og juku jafnt og þétt við forskot sitt til loka fyrri hálfleiks. Þeir byrjuðu síðan með hvelli í síðari hálfleik og voru með 10 marka forystu eftir níu mínútur, 20:10. Eftir það lék aldrei neinn vafi á hvort liðið færi með sigur úr býtum.
Dagur Árni Heimisson átti stórleik og skoraði 13 mörk, ekkert þeirra úr vítakasti. Aðrir léku einnig vel og tókst að dreifa álaginu nokkuð þegar á viðureignina leið. Ævar Smári Gunnarsson innsiglaði sigurinn þegar hann skoraði beint úr aukakasti eftir að leiktímanum lauk. Systir Ævars Smára, Erna Sóley, keppir í kúluvarpi á Ólympíuleikunum á morgun, fyrst íslenskra kvenna. Systkinin standa í ströngu þessa dagana.
Mörk Íslands: Dagur Árni Heimisson 13, Jens Bragi Bergþórsson 5, Ágúst Guðmundsson 3/2, Bernard Kristján Owusu Darkoh 3, Magnús Dagur Jónatansson 2, Garðar Ingi Sindrason 2, Harri Halldórsson 1, Antoine Óskar Pantanto 1, Stefán Magni Hjartarson 1, Ævar Smári Gunnarsson 1.
Varin skot: Jens Sigurðarson 7, 27%.
Mörk Færeyja: Magnus Árason 7, Rúnar Hammer 7, Jákup Egholm 2, Filip Haldansen 2, Lýðar Í Dímun 2, Pauli Rasmussen 1, Erling Erlendsson 1, Fríði Hólm Í Innistofu 1.
Varin skot: Ingi Johannesen 5, 22% – Bjarni Gunnarsson Jacobsen 4, 24%.
EMU18 karla: Leikir, úrslit og staðan, riðlakeppni
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.