Handknattleiksmaðurinn Ólafur Brim Stefánsson er kominn til Slóvakíu og þar hann hefur samið við efstudeildarliðið MSK Povazska Bystrica til eins árs. Ólafur var á síðasta tímabil í Kúveit.
Var ekki til setunnar boðið
„Ég skrifaði undir samkomulag við félagið á sunnudaginn. Það vildi fá mig út eins og fljótt og hægt var. Mér var ekki til setunnar boðið. Ég dreif mig út og er fer með liðinu á æfingamót í Tékklandi á morgun, stekk beint út í djúpu laugina enda vanur því eftir að hafa farið til Kúveit á síðasta vetri,“ sagði Ólafur Brim í samtali við handbolta.is rétt fyrir hádegið. Hann var þá nýkominn til bæjarins sem félagið er nefnt eftir Povazska Bystrica er í 100 mínútna akstursfjarlægð norðaustur frá Bratislava, höfuðborg Slóvakíu.
Atlaga að Tatran og Evrópukeppni
„Mér finnst þetta vera mjög spennandi dæmi. MSK Povazska Bystrica hefur verið með næsta besta liðið í Slóvakíu og ætlar að gera atlögu að Tatran Presov á komandi tímabili. Tatran hefur verið með besta liðið í Slóvakíu um langt árabil. Ég er einn þeirra sem á að ríða baggamuninn í kapphlaupinu við Tatran,“ sagði Ólafur sem sér einnig fram á þátttöku í Evrópubikarkeppninni með liði MSK Povazska Bystrica.
MSK Povazska Bystrica mætir til leiks í annarri umferð Evrópubikarkeppninnar og mætir tékkneska liðinu HC Robe Zubri síðari hluta október. „Evrópbikarleikirnir eru ein helsta gulrótin í þessu dæmi,“ sagði Ólafur Brim.
Mjög góðar móttökur
„Ég er mjög eftirvæntingafullur. Það var tekið rosalega vel á móti mér. Ég var sóttur á flugvöllinn í Vínarborg af einkabílstjóra,“ sagði Ólafur sem fer síðar í dag á sína fyrstu æfingu með nýjum liðsfélögum. Deildarkeppnin hefst í næsta mánuði en framundan er æfingamót í Tékklandi.
Innan raða MSK Povazska Bystrica eru fjórir landsliðsmenn Slóvaka auk a.m.k. eins handknattleiksmanns frá Serbíu.
Áfram úti
Ólafur Brim kom til Íslands í byrjun júní nokkurra mánaða dvöl í Kúveit þar sem hann lék með félagsliði. „Ég var leita í kringum mig heima en var á sama tíma með augun á að vera áfram úti. Mér þykir þetta spennandi tilboð og vil láta á það reyna í stað þess að vera heima,“ sagði Ólafur Brim Stefánsson nýr liðsmaður MSK Povazska Bystrica í Slóvakíu.
Sjá einnig: „Ævintýri sem ég gat ekki annað en hoppað á“
Karlar – helstu félagaskipti 2024