Íslenska landsliðið er komið í undanúrslit á Evrópumóti 18 ára landsliða karla í handknattleik í Podgorica í Svartfjallalandi. Með sigri á norska landsliðinu í dag var sæti í undanúrslitum innsiglað, 31:25. Íslensku piltarnir leika á morgun í undanúrslitum en það kemur ekki í ljós fyrr en síðar í dag hver andstæðingurinn verður en ekki er ósennilegt að það verði Ungverjar. Keppni lýkur ekki í hinum riðli undanúrslitanna fyrr en síðdegis.
Ísland var síðast með lið í undanúrslitum á EM 18 ára landsliða karla fyrir sex árum.
Ísland og Svíþjóð fara í undanúrslit úr riðlinum. Spánverjar og Norðmenn leika um fimmta til áttunda sætið. Svíþjóð, Ísland og Spánn eru með fjögur stig hvert en þegar litið er til markatölu í innbyrðisleikjum liðanna þriggja þá standa Svíar og Íslendingar betur að vígi en Spánverjar sem fyrirfram voru taldir sigurstranglegastir á mótinu.
Íslensku piltarnir hafa unnið fimm af sex viðureignum sínum á mótinu.
Handbolti.is segir frá því strax og ljóst verður hverjum íslensku piltarnir mætast í undanúrslitum Evrópumótsins og klukkan hvað leikurinn verður á morgun.
Óhætt er að segja að piltarnir hafi gengið hreint til þess verks. Þeir yfirspiluðu Norðmenn strax frá upphafi. Varnarleikurinn var frábær, bæði 6/0 og 5/1 auk þess sem Jens Sigurðarson fór á kostum í markinu. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 17:9, Íslandi í vil.
Í upphafi síðari hálfleiks náðu íslensku piltarnir 11 marka forskoti, 21:10. Þeir slökuðu ekki á klónni fyrr en forskotið var 12 mörk, 29:17. Síðustu mínúturnar leystist leikurinn aðeins upp enda ljóst að sigurinn var í höfn og sæti í undanúrslitum EM.
Mörk Íslands: Ágúst Guðmundsson 6, Garðar Ingi Sindrason 5, Harri Halldórsson 4, Antoine Óskar Pantano 3, Stefán Magni Hjartarson 3, Dagur Árni Heimisson 2, Dagur Leó Fannarsson 2, Ævar Smári Gunnarsson 2, Nathan Doku Helgi Asare 1, Daníel Montoro 1, Magnús Dagur Jónatansson 1, Jens Bragi Bergþórsson 1.
Varin skot: Jens Sigurðarson 13, 48% – Elias Sindri Pilman 3, 21%.
Mörk Noregs: Tobias Mehren Søberg 6, Carl Colin Tønnesen 6, Gaston René Jean-Marie Denichou 4, Theodor Robertsen Østland 2, Thomas Sivertsen 2, Sturle Lea Nilson 1, Alexander Løke Gautestad 1, Vemund Notheim Ask 1, Ola Sønju Eggum 1, Jesper Dolva 1.
Varin skot: Oskar Hallereud Lindell 8, 36% – Vetle Revheim Gleditsch 2, 12%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.