Bronsverðlaunin á Evrópumótinu í handknattleik gengu piltunum í 18 ára landsliði Íslands úr greipum í úrslitaleiknum við Ungverja í dag. Eftir framlengdan leik voru það ungversku piltarnir sem hrósuðu sigri, 36:34, eftir að hafa verið undir nær allan leikinn. Þeir jöfnuðu metin, 32:32, á síðustu sekúndum venjulegs leiktíma og voru sterkari í síðari hluta framlengingar.
Eitt mark síðustu sex mínúturnar
Ísland var fjórum mörkum yfir, 31:27, þegar rúmar sex mínútur voru eftir. Þá snerust vopnin svo sannarlega í höndum íslensku piltanna. Þeim gekk verr og verr að skora og eina markið sem skorað var það sem eftir var hefðbundins leiktíma var gert úr vítakasti. Ungverjar gengu á lagið og söxuðu niður forskotið jafnt og þétt. Hálfri mínútu fyrir leikslok fór síðasti möguleikinn á að tryggja sér sigurinn þegar skot Ágústs Guðmundssonar söng í stöng ungverska marksins. Ungverjar nýttu tímann sem eftir var og jöfnuðu metin 32:32.
Staðan í hálfleik var, 16:15. Íslenska liðið tók síðan fljótlega frumkvæðið í síðari hálfleik og virtist ráða lögum og lofum verandi þremur til fimm mörkum yfir lengst af.
Dagur Árni fékk rautt spjald
Íslenska liðið varð fyrir miklu áfalli á 44. mínútu þegar Degi Árna Heimissyni var vikið af leikvelli með rautt spjald. Dagur Árni hafði þá rétt áður komið Íslandi fjórum mörkum yfir, 25:21. Ef marka má látbragð dómara og Dags Árna þegar rauða spjaldið fór á loft þá var hann sakaður um olnbogaskot. Í endurtekningu á útsendingu á atvikinu er ekki að sjá að sú hafi verið raunin.
Dagur Árni var kjölfesta í sóknarleik íslenska liðsins og því sannarlega skarð fyrir skildi að missa hann af leikvelli fyrir fullt og fast. Ekki síst reyndist það vera raunin þegar kom fram á síðustu mínútur leiksins og þreytan sagði til sín hjá samherjum hans.
Fyrst eftir rauða spjaldið héldu íslensku strákarnir sínu striki og voru með fjögurra til fimm marka forskot allt þar til á lokakaflanum að þeim féll allur ketill í eld.
Mörk Íslands: Harri Halldórsson 8, Ágúst Guðmundsson 6/3, Jens Bragi Bergþórsson 6, Garðar Ingi Sindrason 5, Dagur Árni Heimisson 4, Antoine Óskar Pantano 3, Stefán Magni Hjartarson 2.
Varin skot: Jens Sigurðarson 9, 20%.
Mörk Ungverjalands: Márkó Eklemovic 7, Kristof Barnabas Sikler 5, Máté Racsko 5, Máté Mészáros 4, Péter Vincze 4, Balázs Hoffman 4, Botond Németh Bulcsú 4, Boldizsár Kovács 3.
Varin skot: Ádám Kristóf Balogh 9, 47% – László Várady-Szabó 9, 28%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.