Handknattleiksmaðurinn Gunnar Kristinn Malmquist Þórsson leikur ekki með Aftureldingu á komandi leiktíð. Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingaliðsins staðfesti þessi tíðindi við handbolta.is í gær. Rætt hefur verið um það manna á milli síðan í vor að Gunnar hefði í hyggju að láta staðarnumið á handknattleiksvellinum.
Skarð er fyrir skildi hjá liði Aftureldingar þegar Gunnar leggur skóna á hilluna. Hann hefur verið einn helsti varnarmaður Aftureldingar undanfarin ár og sett sterkan svip á Aftureldingarliðið með baráttu og leikgleði auk þess að vera mikill félagsmaður. Hann hefur vart misst úr leik í áratug með Aftureldingu.
Tíu ár eru síðan Gunnar kom til liðs við Aftureldingu frá Val en hann er af mikilli íþróttafjölskyldu úr Þorpinu á Akureyri. Afi hans og nafni lék árum saman og þjálfaði hjá Þór auk þess sem móðurbræður Gunnars, Arnór Þór og Aron Einar, hafa verið landsliðsmenn og fyrirliðar landsliðanna í handknattleik og knattspyrnu.
Gunnar er og hefur verið einn eftirsóttasti og hugmyndaríkasti hárskeri landsins um árabil.
Níu leikmenn hafa kvatt Aftureldingarliðið frá síðasta keppnistímabili þegar það lék til úrslita við FH um Íslandsmeistaratitilinn. Þeir eru auk Gunnars, Andri Þór Helgason, Bergvin Þór Gíslason, Birkir Benediktsson, Böðvar Páll Ásgeirsson, Jakob Aronsson, Jovan Kukobat, Leó Snær Pétursson, Þorsteinn Leó Gunnarsson.
Í staðinn hafa komið Einar Baldvin Baldvinsson, Hallur Arason, Kristján Ottó Hjálmarsson og Sveinur Ólafsson auk þess sem Haukur Guðmundsson kom til baka úr eins árs lánsdvöl hjá Stjörnunni.
Karlar – helstu félagaskipti 2024