Íslandsmeistarar FH unnu bikarmeistara Vals í Meistarakeppni HSÍ í karlaflokki í kvöld, 30:28, þegar liðin leiddu saman kappa sína í Kaplakrika. Jafnt var að loknum fyrri hálfleik, 15:15, í annars afar jöfnum leik.
FH-ingar voru sterkari síðasta stundarfjórðung leiksins. Munaði þar mest um samvinnu Arons Pálmarssonar og Jóns Bjarna Ólafssonar línumanns. Þeir náðu, eins og stundum áður, afar vel saman og léku vörn Vals grátt. Jón Bjarni skoraði átta mörk, flest ef ekki öll eftir sendingar frá Aroni. Einnig leiddi samvinna þeirra af sér vítaköst og brottrekstra hjá Valsmönnum.
FH-liðið lék mun betur en gegn Haukum í úrslitum Hafnarfjararmótsins á laugardaginn og ljóst að tíminn síðan þá hefur verið vel nýttur.
Valsmenn eru með talsvert breytt lið. Færeyingurinn Bjarni í Selvindi var allt í öllu í sóknarleiknum. Honum óx ásmegin þegar á leikinn leið. Viktor Sigurðsson á greinilega að taka við hlutverki Benedikts Gunnars sem leikstjórnandi.
Nýi línumaður Vals, Miodrag Corsovic, er ekki kominn með leikheimild og Magnús Óli Magnússon er að safna kröftum eftir aðgerð í sumar vegna fingubrots. Róbert Aron Hostert lék aðallega í vörninnni.
Valur á stífa dagskrá fyrir höndum. Evrópuleikur á heimavelli á laugardaginn og fyrsti leikur í Olísdeildinni á miðvikudagskvöld. Daginn eftir verður haldið af stað til Króatíu í síðari Evrópuleikinn við RK Bjelin Spacva Vinkovci.
FH-ingar mæta Fram í upphafsleik sínum í Olísdeildinni í Kaplakrika á fimmtudaginn.
Leonharð Þorgeir Harðarson er frá keppni vegna meiðsla. Birgir Már Birgisson var með í kvöld. Hann er engu að síður að jafna sig af meiðslum.
Mörk FH: Jón Bjarni Ólafsson 8, Aron Pálmarsson 6, Jóhannes Berg Andrason 6, Símon Michael Guðjónsson 6/3, Birgir Már Birgisson 2, Ásbjörn Friðriksson 2.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 11, 28,9%.
Mörk Vals: Bjarni í Selvindi 7, Ísak Gústafsson 5/1, Andri Finnsson 4, Viktor Sigurðsson 2, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 2, Allan Norðberg 2, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 2, Róbert Aron Hostert 1, Gunnar Róbertsson 1, Alexander Peterson 1, Kristófer Máni Jónasson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 15/1, 33,3%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.