ÍR hefur fengið aukinn liðsauka fyrir átökin í Olísdeild kvenna í vetur. Unglingalandsliðskonan Dagmar Guðrún Pálsdóttir hefur verið lánuð til ÍR-liðsins frá Fram. Samningurinn gildir út leiktíðina eftir því sem fram kemur á félagaskiptasíðu HSÍ og verður hún gjaldgeng með ÍR gegn Stjörnunni í 2. umferð Olísdeildar á laugardaginn.
Dagmar Guðrún er örvhent skytta og var m.a. markahæst leikmanna íslenska landsliðsins á heimsmeistaramóti 18 ára landsliða sem fram fór í Kína í síðasta mánuði með 27 mörk, þar af fimm úr vítaköstum. Einnig átti Dagmar Guðrún 16 stoðsendingar í leikjum mótsins. Dagmar Guðrún lét einnig til sín taka með U17 ára landsliðinu á EM sumarið 2023.
Dagmar Guðrún lék 10 leiki með Fram í Olísdeildinnni á síðustu leiktíð og skoraði 10 mörk. Einnig skoraði hún 27 mörk í sex leikjum með U-liði Fram í Grill 66-deildinni.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Konur – helstu félagaskipti 2024.