- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÍR-ingar kræktu í sitt fyrsta stig

Katrín Tinna Jensdóttir, skoraði jöfnunarmarki ÍR. Mynd/ÍR
- Auglýsing -

ÍR fékk sitt fyrsta stig í Olísdeild kvenna á leiktíðinni í kvöld þegar liðið gerði jafntefli við ÍBV í jöfnum og spennandi leik í Skógarseli, 22:22. Katrín Tinna Jensdóttir skoraði jöfnunarmarkið 40 sekúndum fyrir leikslok. Eyjaliðið átti síðustu sóknina en tókst ekki að gera sér mat úr henni. Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 12:12.

Eins og fyrr segir þá var um að ræða fyrsta stig ÍR-liðsins í deildinni í þremur fyrstu leikjunum. ÍBV er með þrjú stig, öll unnin á útivelli. Framundan tveggja vikna hlé vegna landsleikja og ljóst að tíminn verður báðum liðum kærkominn.

ÍR-ingar byrjuðu leikinn betur og voru með yfir höndina lengst af fyrri hálfleiks, m.a. var staðan 7:3 þegar leiktíminn var hálfnaður. Eyjaliðið vann sig inn í leikinn jafnt og þétt. Varnarleikurinn batnaði og sóknarleikurinn þyngdist. Sjö mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks var forskot ÍR þrjú mörk, 11:8. Liðið skoraði aðeins eitt mark á þeim mínútum sem eftir voru.
Sunna Jónsdóttir jafnaði metin fyrir ÍBV, 11:11, eftir 27 mínútna leik og skömmu síðar kom Birna Berg Haraldsdóttir ÍBV yfir í fyrsta sinn með marki eftir vítakast, 12:11. Karen Tinna Demian jafnaði metin, 12:12, úr vítakasti hálfri mínútu áður en hálfleikshléið brast á.

Í járnum framan af

Leikurinn var í járnum framan af síðari hálfleik og áfram bar talsvert á sóknarmistökum af hálfu beggja liða. ÍBV komst yfir, 16:15, en ÍR svaraði með þremur mörkum í röð og náði tveggja marka forskoti þegar leiktíminn var akkúrat hálfnaður, 18:16. Leikmönnum ÍR hélst illa á spilinum í framhaldinu. Í stað þess að ná þriggja marka forskoti, 19:16, þá töpuðu þeir boltanum hvað eftir annað og ÍBV jafnaði metin, 18:18, og komst yfir, 19:18. Illa gekk hjá ÍR-ingum að jafna metin og getur liðið þakkað Ísabellu Schöbel Björnsdóttir fyrir að halda liðinu inn í leiknum áður en Karen Tinna jafnaði metin loksins, 19:19, úr vítakasti átta mínútum fyrir leikslok.

Spennandi lokamínútur

Síðustu fimm mínúturnar voru æsispennandi. ÍBV komst tvisvar tveimur mörkum yfir, 19:21 og 20:22. ÍBV átt þess kost að ná í þriðja sinn tveggja marka forskoti 80 sekúndum fyrir leikslok þegar Sunna vann vítakast. Vítabaninn Hildur Öder varði vítakast Birnu Berg. ÍR hóf sókn og Katrín Tinna Jensdóttir jafnaði metin þegar hún skoraði af línu, 22:22, 40 sekúndum fyrir leikslok. ÍBV átti síðustu sóknina en tókst ekki að færa sér hana í nyt. Sunna átti skot yfir. ÍBV vildi fá dæmt brot en Þorleifur Árni Björnsson og Ramunas Mikalonis voru á öðru máli og höfðu sennilega rétt fyrir sér.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

Mörk ÍR: Karen Tinna Demian 11/10, Katrín Tinna Jensdóttir 4, Hanna Karen Ólafsdóttir 2, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 2, Matthildur Lilja Jónsdóttir 1, Vaka Líf Kristinsdóttir 1, Sara Dögg Hjaltadóttir 1.
Varin skot: Ísabella Schöbel Björnsdóttir 7, 33,3% – Ingunn María Brynjarsdóttir 2, 20% – Hildur Öder Einarsdóttir 1/1, 100%.
Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 11/4, Birna María Unnarsdóttir 5, Sunna Jónsdóttir 5, Britney Cots 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 13, 39,4% – Bernódía Sif Sigurðardóttir 0.

Öll tölfræðin hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -