„Fyrri hálfleikur var fínn en síðari hálfleikur frábær, ekki síst í vörninni,” sagði Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar við handbolta.is að Varmá í kvöld eftir að liðið vann KA með 11 marka mun í þriðju umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Mosfellingar hreinlega kjöldrógu KA-menn í síðari hálfleik sem skoruðu aðeins fjögur mörk á fyrstu 20 mínútum síðari hálfleiks. Lokatölur 33:22.
„Okkur tókst að loka vel á KA-menn í síðari hálfleik. Þá kom markvarslan með og ódýr mörk í kjölfarið,“ sagði Gunnar en Afturelding hefur unnið tvo leiki í röð í deildinni. „Ég bjó mig undir jafnari leik en við vorum massívir og slökuðum aldrei á. Við gáfum aldrei færi á okkur, vorum mjög fagmannlegir,“ sagði Gunnar ennfremur.
Athygli vakti að Gunnar tefldi á köflum fram mjög ungu liði og síðustu 10 mínúturnar má segja að eingöngu leikmenn fæddir 2006 og 2007 hafi leikið fyrir hönd Aftureldingar. „Við höfum mikla trú á ungu strákunum og vitum vel hvað þeir geta en að sama skapi vitum við að það eru sveiflur í þeirra leik. Það verður að sýna þeim þolinmæði.“
Lengra myndskeiðsviðtal er við Gunnar efst í þessari frétt.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.