Karen Knútsdóttir fyrrverandi landsliðs- og atvinnukona í handknattleik lék í gærkvöld í fyrsta sinn með Fram í Olísdeildinni síðan vorið 2022 þegar hún fagnaði Íslandsmeistaratitlinum. Karen steig inn á leikvöllinn þegar liðlega 20 mínútur voru liðnar af viðureign Fram og Vals í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal.
Hún tók nýverið fram handboltaskóna á nýjan leik og helti sér á fullu út í æfingar. Ljóst var á frammistöðu Karenar að hún hefur ekki slegið slöku við né nokkru gleymt enda ein leikreyndasta og fremsta handknattleikskona landsliðsins með 106 landsleiki að baki.
Tekur sinn tíma
„Ég á ennþá svolítið í land en tímabilið er langt og ég hef þar af leiðandi engar áhyggjur. Það tekur líka sinn tíma að læra inn á stelpurnar. Ég var til dæmis að leika í fyrsta sinn með Ölfu [Brá Oddsdóttur]. Það er veisla að leika með henni. Aðrar þekki ég vel, til dæmis Steinunni, Þóreyju og Lenu. Það mun taka sinn tíma fyrir okkur að spila okkur betur saman,“ sagði Karen m.a. í samtali við Ingvar Örn Ákason í sjónvarpi Símans eftir viðureignina. Viðtali er m.a. aðgengilegt á Handboltapassanum.
Eru forréttindi
„Það eru forréttindi að fá tækifæri til þess að spila með sínum bestu vinkonum sem einnig eru bestu samherjar sem hægt er að hafa,“ bætti Karen við og sagði tilfinningarnar vera blendnar eftir leikinn. Gaman væri að vera mætt aftur út á leikvöllinn en að sama skapi þyldi hún ekki að tapa. Valur vann leikinn örugglega, 29:25.
Eitthvað jákvætt að gerast
„Við stefnum á að toppa á réttum tíma. Það skiptir ekki máli hver er á toppnum um jólin,“ sagði Karen og bætti við að stígandi hafi verið í Framliðinu síðan hún byrjaði að æfa fyrir nokkrum vikum. „Það er eitthvað mjög jákvætt að gerast í Úlfarsárdal,“ sagði Karen Knútsdóttir með bros á vör í fyrrgreindu viðtali við Ingvar Örn Ákason í sjónvarpi Símans.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Olísdeildir – frétttir og frásagnir.