„Við vorum sjálfum okkur verstir þegar leið á fyrri hálfleik, ekki síst síðustu 15 mínúturnar. Með meiri klókindum og reynslu við þessar aðstæður þá hefði staða okkur getað verið betri í hálfleik, þriggja til fjögurra marka munur hefði verið viðunandi í stað átta marka muns. Síðari hálfleikur var á hinn bóginn betri hjá okkur,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari karlaliðs Vals í samtali við handbolta.is í gærkvöld spurður út í viðureign RK Vardar og Vals í fyrstu umferð Evrópudeildarinnar sem fram fór í Skopje í Norður Makedóníu á þriðjudagskvöld.
Heildarmyndin ekki góð
„Við erum ekki nógu ánægðir með heildarmyndina. Hefðum viljað geta gert ennþá betur. Við hefðum getað strítt þeim með því að vera betri útgáfa af okkur sjálfum á flestum sviðum,“ sagði Óskar Bjarni ennfremur.
Sólarhringur í Þýskalandi
Óskar Bjarni var staddur í Þýskalandi þegar handbolti.is hringdi í hann í gærkvöld. Valsliðið staldrar þar við í sólarhring áður en það kemur heim til Íslands í kvöld, fimmtudag. Lítill tími gefst því til undirbúnings fyrir viðureignina við ÍR í Olísdeild karla annað kvöld, föstudag.
Valur tapaði leiknum í Skopje, 33:26, eftir að hafa verið átta mörkum undir í hálfleik, 19:11. Upptöku af leiknum í heild er finna neðst í greininni.
Skorti aga og þolinmæði
„Fyrstu mínúturnar voru allt í lagi hjá okkur. Við skoruðum fyrstu tvö mörkin og vorum áfram með leik allt þar til í stöðunni 9:6 fyrir Vardar. Þegar á leið hefðum við átt að gera betur varnarlega gegn þungum klippingum Vardarliðsins. Sóknarlega vorum við ekki nógu agaðir lengst af. Við lukum alltof mörgum sóknum eftir 15 til 20 sekúndur í stað þess að leika lengur og láta aðeins reyna á hvernig Vardarliðið brygðist við, finna hvernig vörn leikur og reyna að aðeins þreyta þá. Markmaður Vardar varði líka mjög vel úr þeim opnu færum sem við fengum eftir stuttu sóknir okkar,“ sagði Óskar Bjarni.
Misstum dampinn
„Um leið og munurinn jókst að milli liðanna þá fannst mér við verða svolítið litlir í okkur og misstum dampinn. Varnarleikurinn var erfiður á kafla. Til að bregðast við í sóknarleiknum fórum við í sjö á sex. Þá komu nokkrir tæknifeilar sem urðu til þess að við fengum á okkur auðveld mörk. Síðustu 15 mínútur fyrri hálfleiks voru mjög töff fyrir okkur,“ sagði Óskar Bjarni sem var sáttari við leik Vals í síðari hálfleik þegar það tókst að halda sjó, alltént jókst ekki munurinn á liðunum.
Sjá einnig: Evrópudeild karla “24 – riðlakeppni 32-liða – 1. umferð, úrslit
Meiri virðing fyrir boltanum
„Síðari hálfleikur var mikið betri af okkar hálfu. Sóknarleikurinn var agaðri og segja má að við höfum náð að bera aðeins meiri virðingu fyrir boltanum. Þegar á leið var ljóst að leikmenn Vardar voru farnir að þreytast. Þeir eru stórir og þungir flestir hverjir. Eftir leikinn höfðu þeir orð á hversu ánægðir þeir voru að hafa náð að stjórna hraðanum í leiknum,“ sagði Óskar Bjarni en ljóst var að leikmenn Vardar óttuðust fyrirfram að Valsliðið næði að keyra upp hraða leiksins.
Miðasala á handboltaveisluna í Kaplakrika er á stubb.is – smellið hér.
Tókst ekki að þessu sinni
„Reynsla okkar er sú í þessum Evrópuleikjum síðustu árin að eftir því lengur er hægt að vera með jafnari stöðu þeim mun meiri eru möguleikar á að stríða andstæðingnum og ná í stig. Til þess verðum við að vera klókir og ná því besta fram. Eitthvað sem okkur tókst ekki að þessu sinni,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik í samtali við handbolta.is.
Sjá einnig: Á brattann var að sækja í Skopje
Hér fyrir neðan er allur leikurinn: