Þór færðist upp að hlið Víkings og Fram2 í eitt þriggja efstu sæta Grill 66-deildar karla í kvöld með því að tryggja sér tvö stig til viðbótar að launum fyrir að leggja Selfoss með átta marka mun, 34:26, í síðustu viðureign fjórðu umferðar deildarinnar í Íþróttahöllinni á Akureyri. Þórsarar hafa þar með sex stig að loknum fjórum leikjum. Selfoss-liðið er tveimur stigum á eftir.
Þórsarar tóku frumkvæðið strax í upphafi viðureignarinnar. Liði Selfoss tókst að jafna metin tvisvar sinnum á fyrstu 10 mínútunum, 5:5 og 6:6. Eftir það tóku Þórsarar af skarið og bættu jafnt og þétt við forskot hálfleikinn á enda. Þegar gengið var til búningsherbergja að loknum 30 mínútum voru Þórsarar sex mörkum yfir, 20:14.
Fljótlega í síðari hálfleik var forskot Akureyrarliðsins orðið átta mörk. Selfoss-liðið beit frá sér og minnkaði muninn í fjögur til fimm mörk á löngum kafla. Undir lokin jók Þór forystu sína á nýjan leik og vann með átta marka mun.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.
Mörk Þórs: Hafþór Már Vignisson 8, Brynjar Hólm Grétarsson 7, Oddur Gretarsson 7, Aron Hólm Kristjánsson 5, Arnór Þorri Þorsteinsson 3, Garðar Már Jónsson 2, Þórður Tandri Ágústsson 2.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 8.
Mörk Selfoss: Hannes Höskuldsson 7, Alvaro Mallols Fernandez 5, Elvar Elí Hallgrímsson 4, Jónas Karl Gunnlaugsson 3, Hákon Garri Gestsson 2, Anton Breki Hjaltason 1, Guðjón Baldur Ómarsson 1, Ísak Kristinn Jónsson 1, Skarphéðinn Steinn Sveinsson 1, Tryggvi Sigurberg Traustason 1.
Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson 15.