Landslið Íslands og Póllands mætast öðru sinni í vináttulandsleik í Sethöllinni á Selfossi í dag klukkan 16. Íslenska liðið vann viðureignina í gærkvöld í Lambhagahöllinni með sex marka mun, 30:24.
Landsleikurinn verður sendur út á Handboltapassanum eins og aðrir leikir innanlands í dag. Einnig er ókeypis aðgangur að leiknum í Sethöllinni.
Áttundu umferð Olísdeildar karla í handknattleik lýkur í dag með viðureign ÍBV og KA í Vestmannaeyjum. Til stendur að flauta til leiks klukkan 15. KA rekur lestina í deildinni eftir sigur HK í fyrrakvöld. Eyjamenn mæta aftur á móti með vængbrotið lið til leiks. Tveir leikmenn taka út leikbann, Kristófer Ísak Bárðarson og Sigtryggur Daði Rúnarsson. Auk þess voru þrír leikmenn frá vegna meiðsla þegar ÍBV mætti Aftureldingu fyrir rúmri viki. Óvíst er hvort þeir hafi náð heilsu.
Harðarmenn á Ísafirði sækja Þórsara heim í Grill 66-deildinni í karlaflokki. Þórsarar eru efstir í deildinni ásamt Fram2 en Harðarmenn vilja bætast í toppslaginn og gera það takist þeim að vinna í Höllinni á Akureyri.
Loks er að geta síðari viðureignar Hauka og finnska liðsins HC Cocks í 64-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar sem leikinn verður Riihimäki norður af Helsinki í dag. Haukar hafa níu marka forskot eftir fyrri viðureignina á Ásvöllum á sunnudaginn. Hægt verður að kaupa aðgang að streymi frá leiknum fyrir tæpar sex evrur, liðlega 1.000 kr. Hlekkur á streymið er neðst í þessari frétt.
Leikir dagsins
Vináttulandsleikir kvenna:
Sethöllin: Ísland – Pólland, kl. 16.
-Útsending á Handboltapassanum – einnig textalýsing á handbolti.is
Olísdeild karla:
Vestmannaeyjar: ÍBV – KA, kl. 15.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Grill 66-deild karla:
Höllin Ak.: Þór – Hörður, kl. 16.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.
Evrópubikarkeppni karla, 64-liða úrslit, síðari leikur:
Riihimäki: HC Cocks – Haukar, kl. 13 (26:35).
Hlekkur á streymi frá leiknum – smellið hér.