Fjórar vikur eru í dag þangað til flautað verður til fyrsta leiks íslenska kvennalandsliðsins á Evrópumótinu í handknattleik í Innsbruck í Austurríki. Verður þetta í fyrsta sinn í 12 ár sem íslenska landsliðið tekur þátt í lokakeppni EM í kvennaflokki og í þriðja sinn sem Íslands má senda landslið til þátttöku.
Upphafsleikur íslenska landsliðsins á EM 2024 verður gegn hollenska landsliðinu í Olympiahalle í Innsbruck föstudaginn 29. nóvember. Flautað verður til leiks klukkan 17 að íslenskum tíma. Tveimur dögum síðar á fullveldisdaginn 1. desember mætir íslenska landsliðið liði Úkraínu og 3. desember verður leikið gegn þýska landsliðinu. Leikirnir, sem hefjast munu klukkan 19.30 að íslenskum tíma, fara einnig fram í Olympiahalle.
Alls verður leikið í sex riðlum á fyrsta stigi EM í þremur löndum, Austurríki, Ungverjalandi og Sviss. Tvö efstu lið hvers riðils halda áfram keppni en tvö þau neðstu halda heim á leið eftir riðlakeppnina.
Tveir leikir í Sviss
Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari, valdi í upphafi vikunnar 35 leikmenn sem hann mun síðan velja úr fámennari hóp til æfingar og keppni fyrir EM. Æfingahópurinn verður tilkynntur fyrir miðjan nóvember en líklega mun hann ekki koma allur saman til æfinga fyrr en mánudaginn 18. nóvember. Farið verður til Sviss 21. nóvember og leikið gegn landsliði Sviss ytra, 22. og 24. nóvember, áður en stefnan verður tekin til Innsbruck þar sem tekið verður til óspilltra málanna 29. nóvember.
Handbolti.is verður á vaktinni á EM í Innsbruck með blaðamann og ljósmyndara.