„Við erum að fara á fullt við að búa okkur undir leikinn við Kristianstad í N1-höllinni á laugardaginn,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Íslandsmeistara Vals í handknattleik sem undanfarna daga hefur legið yfir upptökum með leikjum sænska úrvalsdeildarliðsins sem sækir Val heim í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar klukkan 16.30 á laugardaginn. Um er að ræða fyrri viðureign liðanna. Sú síðari verður háð í Svíþjóð aðra helgi.
Tvær íslenskar handknattleikskonur leika með Kristianstad, Berta Rut Harðardóttir og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir en sú síðarnefnda er landsliðskona.
„Ég hef skoðað nokkra leiki með Kristianstad úr síðustu umferðum. Enginn vafi leikur á að við eigum fyrir höndum glímu við sterkt lið. Kristianstad fór vel af stað í deildinni í haust en hefur aðeins dalað upp á síðkastið. Engu að síður er ljóst að við þurfum á öllu okkar besta að halda til þess að ná fram sigri,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals.
- Kristianstad HK vann hollenska liðið Westfriesland SEW samanlagt með 19 marka mun, 67:48, heima og að heiman í 64-liða úrslitum.
- Á sama tíma hafði Valur betur á móti Zalgiris Kaunas frá Litáen í tveimur leikjum á útivelli, 65:45.