Flest bendir til þess að Boris Rojevic stýri ekki serbneska karlalandsliðinu í fleiri leikjum en þeim fjórum sem hann hefur verið við stjórnvölin í. Spánverjinn Raúl Gonzalez taki við og skrifi undir fjögurra ára samning. Frá þessu greina serbneskir fjölmiðlar.
Rojevic tók við þjálfun serbneska landsliðsins í lok febrúar og sinnir því samhliða þjálfun meistaraliðsins Vojvodina hvar hann hefur gert það gott. Hinsvegar hefur árangurinn með landsliðið að sama skapi ekki verið viðunandi að mati stjórnenda handknattleikssambandsins.
Ekkert HM og tap fyrir Ítalíu
Serbum tókst ekki í vor að tryggja sér þátttökurétt á HM og á sunnudaginn töpuðu þeir óvænt fyrir Ítalíu í undankeppni EM, 31:30. Tapið svíður enda hafa Ítalir löngum ekki þótt skeinuhættir á handknattleiksvellinum.
Forverinn var í þrjú ár
Rojevic tók við af Spánverjanum Toni Gerona sem varð að taka pokann sinn eftir EM í Þýskalandi í janúar þegar serbneska landsliðið heltist úr lestinni að lokinni riðlakeppninni hvar það mætti m.a. íslenska landsliðinu. Gerona var landsliðsþjálfari í þrjú ár sem þykir gott á þessu slóðum.
Þekkir til á þessum slóðum
Serbneskir fjölmiðlar segja að Raúl Gonzalez, sem er samningsbundinn PSG út þessa leiktíð, hafi samið við serbneska handknattleikssambandið til fjögurra ára, fram yfir Ólympíuleikana 2028, með það markmið að Serbar verði með á leikunum.
Gonzalez þekkir vel til á þessum slóðum handboltans. Hann var landsliðsþjálfari Norður Makedóníu frá 2017 til 2019 og var á sama tíma þjálfari Vardar Skopje sem á þessum árum var eitt fremsta handknattleikslið Evrópu, m.a. sigurlið Meistaradeildar Evrópu 2017 og 2019 áður en halla tók undan fæti.