- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fram sagði skilið við Hauka – Embla skoraði sigurmarkið í Skógarseli

Embla Steindórsdóttir skoraði sigurmark Stjörnunnar í Skógarseli. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -


Fram sagði skilið við Hauka í samfloti liðanna í öðru til þriðja sæti deildarinnar með öruggum átta marki sigri í uppgjöri liðanna í 9. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik á Ásvöllum. Liðin hafa verið jöfn að stigum um langt skeið en leiðir skilja nú eftir síðasta leik þeirra á árinu. Þar að auki hefur Fram unnið báðar innbyrðisviðureignirnar og stendur betur að vígi komi til þes að liðin standi jöfn í lok deildarkeppninnar í vor.

Fram fjórum stigum á eftir Val

Fram hefur 14 stig þegar hlé verður gert á deildinni en Haukar eru tveimur stigum á eftir í þriðja sæti. Valur er sem fyrr efstur með 18 stig.

Framúrskarandi varnarleikur

Fram lék frábæra vörn í viðureigninni á Ásvöllum í kvöld og fékk í kjölfarið mörg hraðaupphlaup auk þess sem markvarslan var góð hjá Dariju Zecevic. Allt er þetta uppskrift að sigri.

Staðan að loknum fyrri hálfleik, 15:11 fyrir Fram í leik sem náði aldrei að vera spennandi eins og vonir stóðu til um áður en upphafsmerkið var gefið af Antoni Gylfa Pálsssyni og Jónasi Elíassyni dómurum.

Sannarlega var skarð fyrir skildi hjá Haukum að Sara Sif Helgadóttir var ekki með í kvöld, annan leikinn í röð.

Æsispenna í Skógarseli

Embla Steindórsdóttir tryggði Stjörnunni bæði stigin í æsispennandi leik gegn ÍR í Skógarseli, 29:28. Hún skoraði níunda og síðasta mark sitt í leiknum af harðfylgi þegar 10 sekúndur voru til leiksloka. Með sigrinum hefur Stjarnan einnig innbyrðis forskot á ÍR eftir að hafa unnið í tvígang á tímabilinu.

Eftir jafna stöðu í hálfleik, 15:15, var Stjörnuliðið með frumkvæðið framan af síðari hálfleik, 1 til 2 mörk. Leikmönnum ÍR tókst að jafna metin og gátu komist yfir á síðustu mínútu. Boltinn var hinsvegar dæmdur af liðinu þegar 48 sekúndur voru eftir. Að loknu leikhléi stillti Stjarnan upp í sókn sem lauk um síðir með marki Emblu. Þær fáu sekúndur sem þá voru eftir nægðu ÍR ekki til að hefja árangursríka sókn.

Varði þrjú vítaköst

Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir markvörður Stjörnunnar varði þrjú vítaköst í leiknum. Munar svo sannarlega um minna í svo jöfnum leik.

Einn leikur er eftir

Einn leikur er eftir á árinu í Olísdeild kvenna. Selfoss sækir Gróttu heim í Hertzhöllina á morgun klukkan 18. Eftir þá viðureign verður gert hlé fram til 4. janúar þegar þráðurinn verður tekinn á nýjan leik.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

Úrslit kvöldsins

Haukar – Fram 20:28 (11:15).
Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 6, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 2, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 2, Inga Dís Jóhannsdóttir 2, Sara Odden 2, Ragnheiður Sveinsdóttir 1, Berglind Benediktsdóttir 1, Thelma Melsted Björgvinsdóttir 1, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 1, Birta Lind Jóhannsdóttir 1, Ragnheiður Ragnarsdóttir 1.
Varin skot: Elísa Helga Sigurðardóttir 4/1, 21,1% – Margrét Einarsdóttir 4, 23,5%.
Mörk Fram: Lena Margrét Valdimarsdóttir 7/4, Steinunn Björnsdóttir 6, Alfa Brá Hagalín 6, Karen Knútsdóttir 4, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 2, Íris Anna Gísladóttir 1, Elín Ása Bjarnadóttir 1, Þórey Rósa Stefánsdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 12/2, 37,5%.

Tölfræði HBStatz.

ÍR – Stjarnan 28:29 (15:15).
Mörk ÍR: Katrín Tinna Jensdóttir 9, Sara Dögg Hjaltadóttir 6, Hanna Karen Ólafsdóttir 4, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 3, Vaka Líf Kristinsdóttir 2, Sylvía Sigríður Jónsdóttir 1/1, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 1, Matthildur Lilja Jónsdóttir 1.
Varin skot: Hildur Öder Einarsdóttir 12, 37,5% – Ingunn María Brynjarsdóttir 3, 27,3%.

Mörk Stjörnunnar: Embla Steindórsdóttir 9/1, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 5, Anna Karen Hansdóttir 5, Vigdís Arna Hjartardóttir 4, Eva Björk Davíðsdóttir 3, Hanna Guðrún Hauksdóttir 2, Tinna Sigurrós Traustadóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 14/3, 35,9% – Aki Ueshima 1, 50%.

Tölfræði HBStatz.

Fyrr í kvöld hafði Valur betur gegn ÍBV, 28:21, eftir að hafa verið átta mörkum yfir í hálfleik, 16:8. Hér er fjallað um leikinn.

Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 8/2, Sigríður Hauksdóttir 5, Thea Imani Sturludóttir 3, Arna Karitas Eiríksdóttir 3, Lovísa Thompson 3, Elísa Elíasdóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Elín Rósa Magnúsdóttir 2.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 12, 40% – Elísabet Millý Elíasardóttir 1, 33,3%.

Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 7/4, Sunna Jónsdóttir 5, Britney Cots 3, Ásdís Halla Hjarðar 1, Herdís Eiríksdóttir 1, Birna Dögg Egilsdóttir 1, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 1, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 1.
Varin skot: Bernódía Sif Sigurðardóttir 3, 10,7% – Ólöf Maren Bjarnadóttir 1, 25%.

Tölfræði HBStatz.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -