Athygli hefur vakið að Þórey Anna Ásgeirsdóttir leikmaður Íslands- og bikarmeistara, hefur ekki verið í landsliðinu í handknattleik í síðustu skipti sem valið hefur verið. Hún var með á HM í lok síðasta árs og einnig gegn Svíum í undankeppni EM í lok febrúar og byrjun mars. Síðan hefur Þórey Anna ekki verið með landsliðinu að því undanskildu að nafn hennar var á 35 kvenna lista sem opinberaður var í síðasta mánuði og Arnar Pétursson landsliðsþjálfari valdi úr 18 leikmenn í gær til þess að taka þátt í EM.
Áttum ágætt samtal
Arnar svaraði aðspurður í gær að Þórey Anna hafi ekki gefið kost á sér í undanförnum verkefnum landsliðsins. „Við áttum ágætt samtal og þetta var niðurstaðan. Um það er svo sem ekkert meira að segja.“
Heldur öllu opnu
Engu að síður er nafn Þóreyjar Önnu í 35 manna hópnum. Arnar segist vilja halda því opnu að hún komi til baka. „Þórey Anna er frábær handboltakona og ég veit fyrir hvað hún stendur. Ástæða þess að hún er í 35 manna hópnum er sú að ég vil halda því opnu að hún komi til baka. Hinsvegar virði ég hennar ákvörðun,“ bætti Arnar við.
Ber virðingu fyrir fórnum þeirra
„Almennt séð þá ber ég ríka virðingu fyrir þeim fórnum sem stelpurnar færa til þess að leika með landsliðinu. Það er ekkert sjálfgefið að þær geti eða vilji gefa kost á sér. Þær stunda vinnu eða eru í námi, eru með fjölskyldu og börn. Fáar eru í atvinnumennsku. Þess vegna er ekkert sjálfgefið að allar finni tíma til þess að vera með landsliðinu. Ég tala ekki um í langan tíma eins og til dæmis á HM í fyrra þegar leikmenn voru mánuð í burtu frá fjölskyldu, vinnu eða skóla. Það er bara alls ekkert sjálfgefið að hafa tök á slíku. Ég ber því virðingu fyrir að ekki séu allar tilbúnar að fórna tíma og öðru í það að spila fyrir landsliðið,“ segir Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik.
A-landslið kvenna – fréttasíða.