„Þetta er lið sem leggur mikið áherslu á að leika og hratt og að standa framliggjandi vörn. Lítið annað vitum við svo sem um andstæðinginn. Við búum okkar undir erfiðan leik í kvöld,“ segir Díana Guðjónsdóttir annar þjálfara Hauka þegar handbolti.is sló á þráðinn til hennar til Ploce í Króatíu hvar Hauka mæta HC Dalmatinka í tvígang í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik. Fyrri viðureignin fer fram í dag og hefst klukkan 18. Sú síðari verður á sama tíma á morgun.
HC Dalmatinka, sem hefur á að skipa fremur ungu liði leikmanna, situr í fjórða sæti í 14 liða úrvalsdeild í Króatíu með níu stig úr átta leikjum, fjórir sigrar, eitt jafntefli og þrjú töp.
„Við rennum blint í sjóinn og látum á það reyna í kvöld. Við förum vitanlega í hver leik til þess að vinna,“ sagði Díana sem hafði nýlega lokið æfingu með Haukaliðinu í hótelgarðinu vegna þess að ekki fékkst tími í keppnishöllinni í morgun eins og vonir stóðu til.
Æft utandyra í morgun
„Við æfðum í keppnishöllinni í gær og látum það duga auk þess að taka létta hreyfingu hér fyrir hótelið í morgun,“ sagði Díana sem lætur að öðru leyti vel af aðstæðum ytra.
Hótelið var lokað
Ploce, sem er hafnarbær við Adríahafið, virðist ekki vera í hringiðu ferðamennskunnar í Króatíu. Hótelið, það eina í bænum, var opnað sérstaklega fyrir íslenska hópinn. Vel fer um leikmenn þjálfara og fylgifiska en nokkrir stuðningsmenn fylgja liðinu svo víst er að áfram Haukar mun hljóma í Dom športova Ploca í kvöld og annað kvöld.