- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hefði viljað vinna báða leiki – fengu svör fyrir EM

Leikmenn íslenska landsliðsins fyrir síðari leikinn við Sviss í gær. Landlsiðið heldur til Austurríkis á morgun. Ljósmynd/HSÍ
- Auglýsing -


„Við áttum möguleika á að vinna báða leikina en vantaði því miður aðeins upp á til þess,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik í samtali við handbolta.is í morgun spurður um vináttuleikina tvo við landslið Sviss í Basel á föstudaginn og í Schaffhausen í gær. Fjórir dagar er fram að fyrsta leik Íslands á Evrópumótinu í Austurríki.

Byrjuðum illa

„Við byrjuðum illa í fyrri leiknum en náðum okkur á strik þegar á leið fyrri hálfleik. Þá náðum við stjórn á leiknum sem því miður dugði ekki til,“ sagði Arnar. Báðar viðureignir töpuðust með eins marks mun, 30:29 í Basel, og 28:27 í gær.

Margt gott

„Eftir að hafa sopið seyðið af slæmum upphafskafla í fyrri viðureigninni þá fannst mér margt gott vera í okkar leik og ég fékk svör við ýmsum spurningum sem leitað hafa á hugann,“ sagði Arnar sem var enn vonsviknari yfir að hafa ekki unnið síðari leikinn í Schaffhausen í gær.

Illa farið með góð færi

„Frá upphafi vorum við með mjög góð tök á leiknum. Þegar fyrri hálfleikur var að baki áttum við að mínu mati að vera með meira forskot en þriggja marka forskot, 12:9. Við fengum fullt af færum til þess að ná mjög góðu forskoti. Ég hefði viljað sjá mikið betri nýtingu á mjög góðum marktækifærum í góðum sóknum og upphlaupum. Fimm, sex til sjö marka forskot hefði ekki verið ósanngjart í hálfleik eins og leikurinn spilaðist,“ sagði Arnar.

Jóhanna Björk Gylfadóttir og Tinna Jökulsdóttir sjúkraþjálfarar, Hlynur Morthens markmannaþjálfari, Ágúst Þór Gylfason aðstoðarþjálfari og Arnar Pétursson landsliðsþjálfari. Ljósmynd/HSÍ

Byrjaði ekki vel

„Síðari hálfleikur byrjaði ekki eins vel og við vildum og þess vegna varð úr jöfn viðureign sem við töpuðum á allra síðustu mínútum,“ sagði Arnar og bætir við að hann hafi einnig fengið svör við ýmsum vangaveltum sínum í síðari hálfleik í gær.

Allar fengu að spreyta sig

Allir 18 leikmenn sem eru í landsliðshópnum fyrir EM fengu tækifæri í leikjunum tveimur, mismikið þó, en leikir sem þessir í aðdraganda stórmóts eru nauðsynlegir til að leita að svörum, jákvæðum jafnt sem neikvæðum.

Reynslunni ríkari

„Það voru góðir kaflar í báðum leikjum þótt vissulega hafi vonir okkar staðið til þess að vinna þá báða. Við erum reynslunni ríkari.

Framundan er vika sem við höfum beðið lengi eftir. Það ríkir tilhlökkun og gleði í hópnum. Við ætlum að njóta þess að vera saman og gera okkur allra besta,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik.

Til Innsbruck í fyrramálið

Leikmenn æfðu í Schaffhausen í morgun en fá frí frá handbolta eftir hádegið og fram eftir degi. Í fyrramálið verður haldið frá Schaffhausen í Sviss til Innsbruck í Austurríki. Fyrsta æfing landsliðsins í Innsbruck verður á miðvikudaginn en fyrsta viðureignin á EM fer fram tveimur dögum síðar gegn hollenska landsliðinu.

Markverðirnir Elín Jóna Þorsteinsdóttir og Hafdís Renötudóttir. Ljósmynd/HSÍ
Leikir Íslands í F-riðli EM kvenna 2024:
29. nóvember: Ísland - Holland, kl. 17.
1. desember: Ísland - Úkraína, kl. 19.30.
3. desember: Ísland - Þýskaland, kl. 19.30.
  • Handbolti.is verður vitanlega á EM, án ríkisaðstoðar, og fer utan með blaðamann og ljósmyndara sem fylgja landsliðinu eftir meðan það stendur í ströngu.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -