Síðast þegar íslenska landsliðið var með á Evrópumóti kvenna í handknattleik, árið 2012 í Serbíu, kom liðið inn í mótið í stað Hollendinga sem verða andstæðingar Íslands í upphafsleiknum á EM 2024 í Innsbruck. Ástæða þess að íslenska liðið fékk óvænt boð um sæti í lokakeppninni 2012 eftir að hafa beðið lægri hlut fyrir Úkraínu í umspilsleikjum vorið 2012 er sú að Hollendingar afþökkuðu að halda mótið með hálfs árs fyrirvara. Um leið var hollenska landsliðinu vikið úr mótinu.
Hættu við eftir hallarbyltingu
Hollendingar áttu að vera gefstgjafara EM í desember 2012 en í kjölfar hallarbyltlingar í stjórn handknattleikssambandsins snemma vors 2012 ákvað nýkjörin stjórn að hætta við að halda mótið. Fjárhagur sambandsins var í molum og ekki talið ráðlegt að bæta gráu ofan á svart með því að halda Evrópumót kvenna. Vonlítið þótti að hagnaður yrði á mótahaldinu.
Serbar hlupu í skarðið
Eftir talsvert þref á milli Handknattleikssambands Evrópu og hollenska handknattleikssambandsins varð niðurstaðan sú, hálfu ári áður en mótið átti að hefjast, að ekkert yrði af mótahaldinu í Hollandi. Serbar, sem höfðu haldið EM 2012 karla í janúar, tóku mótið að sér enda með alla innviði klára eftir karlamótið auk þess sem þeir höfðu fengið úthlutað HM kvenna 2013.
Vorum með besta árangur
Vegna þess að hollenska handknattleikssambandið afþakkaði mótið var landsliði Hollands vikið úr keppni. Ísland var með besta árangur þeirra landsliða sem tapað höfðu í umspilinu og fékk þar með boð um að taka þátt og var því boði tekið.
Tveir leikmenn íslenska landsliðsins í dag voru með á EM 2012, Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir. Ágúst Þór Jóhannsson núverandi aðstoðarmaður Arnars Péturssonar landsliðsþjálfara var landsliðsþjálfari á EM 2012.
Sjá einnig: EM kvenna ”24 – leikjadagskrá, riðlakeppni
A-landslið kvenna – fréttasíða.