- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Austurríkismenn leigðu Sérsveitina í úrslitaleikinn

Hluti Sérsveitarinnar að störfum í Ólympíuhöllinni í Innsbruck í kvöld.
- Auglýsing -


Austurríska handknattleikssambandið samdi við Sérsveitina, stuðningsmannaklúbb íslensku landsliðanna um að mæta á leikinn við Slóvena í riðlakeppni EM í kvenna í kvöld. Sérsveitin á að ríða baggamuninn í erfiðum leik heimaliðsins sem þarf á sigri að halda í Ólympíuhöllinni í Innsbruck til þess að tryggja sér sæti í milliriðlakeppni EM.


„Til okkar kom maður frá austurríska sambandinu í gær eftir leik Íslands og Úkraínu og sagðist bara vilja fá okkur með læti á leikinn. Við áttum nánast ekkert val svo við slóum til,“ sagði Sonja Steinarsdóttir forsvarskona Sérsveitarinnar en framganga hópsins hefur vakið mikla athygli á leikjum Íslands á EM.

„Ég er með 30 gagnslausa trommara og vil bara fá ykkur með. Við þurfum á ykkur að halda í einn leik, tilkynnti maðurinn okkur,“ sagði Sonja létt í bragði í samtali við handbolta.is.

Tíu Íslendingar eru í Sérsveitinni en hún hefur af miklum dugnaði stutt íslensku handboltalandsliðin undanfarin ár, jafnt heima og að heiman.

Leikurinn hófst klukkan 17 og nú er bara að vona að Sérsveitin geri gæfumuninn fyrir austurríska landsliðið sem þarf á sigri að halda gegn Slóvenum til þess að ná sæti í milliriðli og fylgja Noregi eftir til Vínarborgar á morgun. Þar sem blaðamaður handbolta.is situr í keppnishöllinni fer ekki milli mála að Sérsveitin er mætt.

„Við skóluðum Austurríkismennina til fyrir leikinn, kenndum þeim að tromma almennilega. Steini, Elli og Almar sáu um það,“ sagði Sonja í þann mund sem flautað var til leiks Austurríkis og Slóveníu í Ólympíuhöllinni í Innsbruck fyrir stundu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -